Menu
Menu
parallax

Vinnustofur

Handverk í öndvegi

Sólheimar hafa alla tíð lagt mikla áherslu á listir, handverk, notkun náttúrulegs hráefnis, endurnýtingu og endurvinnslu. Allar vinnustofur Sólheima hafa þetta að leiðarljósi, um leið og þær bjóða íbúum Sólheima fjölbreytt skapandi störf þar sem unnar eru fallegar handgerðar vörur og listaverk.

Listaverk og framleiðsluvörur vinnustofa Sólheima er hægt að skoða og kaupa í versluninni Völu á Sólheimum og vefverslun okkar.

Vinnustofur Sólheima sem reknar eru af félagsþjónustunni eru fimm talsins, en þær eru kertagerð, leirgerð, listasmiðja, trésmiðja og vefstofa. 

Kertagerð

Í kertagerð Sólheima eru framleidd handunnin kerti. Kertagerðin framleiðir bývaxkerti ætluð til nota innanhúss og kerti unnin úr endurunnu kertavaxi ætluð til notkunar utanhúss. Kertagerðin hefur lengi vel tekið á móti gömlum kertaafgöngum sem bræddir eru niður og vaxið endurnýtt í útikerti. Tekið er á móti vaxi og kertaafgöngum til endurvinnslu á Sólheimum. Starfsfólk kertagerðar vinnur einnig ýmis önnur skapandi störf svo sem skartgripagerð, myndskreytingar á margnota pokum og gerð fjölnota bývaxklúta.

Kertagerð

Trésmiðja

Í trésmiðju Sólheima eru unnið að alls kyns verkefnum. Trésmiðjan framleiðir ýmsa listmuni og nytjahluti svo sem kertastjaka, mataráhöld og leikföng. Starfsfólk trésmiðjunnar tekur einnig að sér ýmis samfélagsleg verkefni innan Sólheima eins og viðhald og smíði. Í trésmiðjunni er leitast við að nýta timbur frá Sólheimum og nágrenni.

Smíðastofa

Leirgerð

Leirgerð

Í leirgerð Sólheima eru skapaðir ýmsir listmunir allt frá stórum skúlptúrum til lítilla muna. Í leirgerðinni eru einnig hannaðir vinsælir nytjamunir svo sem bollar og skálar. Vinnan í leirgerðinni felst helst í hugmyndavinnu, mótun, málun og frágangi handverks og listmuna. Vörur leirgerðarinnar hafa verið reglulega vinsælar gegnum tíðina enda fjölmargir hæfileikaríkir listamenn fengið útrás fyrir sköpunargleði sína í leirgerðinni.

Vefstofa

Vefstofa

Í vefstofu er hægt að vinna að ýmiskonar handverki og myndlist. Á vefstofunni eru fjórir stórir vefstólar og hafa þeir helst verið nýttir til að vefa gólfmottur, borðdúka, efni í töskur og ullarábreiður. Ívafið í vefstólunum er að mestu úr endurnýttu hráefni og má þá helst nefna gömul sængurföt, gallaefni og garn. Á vefstofu er einnig mikið unnið með prjón, hekl og útsaum og býðst starfsfólki að stunda frjálsa listsköpun í textíl. 

Jurtastofa

Í jurtastofunni eru framleiddar handsápur, krem, sjampó, varasalvi og baðsölt.

Allar vörurnar eru lífrænt vottaðar af Tún vottunarstofu.  

Jurtastofa

Listasmiðja

Í listasmiðju Sólheima er unnið að gerð listmuna sem og nytjahluta. Unnið er að gerð myndverka í ýmsa miðla teikningu, vatnslitun, málun, útsaum og þæfð ullarverk. Í listasmiðju gefst starfsfólki tækifæri til að rækta með sér og þroska frjálsa sköpun og færni í myndlist. Meðal þeirra nytjahluta sem eru framleiddir í listasmiðjunni má helst nefna vinsælar pappaskálar unnar úr afgangspappír.

Listasmiðja
Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!