Menu
Menu

Sesseljuhús sýningarhús

Umhverfisáhrif bygginga

Verklegar framkvæmdir, hvort sem um er að ræða húsbyggingar eða önnur mannvirki, hafa ávallt mikil áhrif á sitt nánasta umhverfi, bæði á framkvæmda- og á líftíma mannvirkisins. Æskilegt er í umhverfislegu tilliti að lágmarka þessi áhrif og var það haft að leiðarljósi við hönnun og smíði Sesseljuhúss.
Til að ná þessu markmiði fram var reynt að halda uppgreftri í algeru lágmarki. Jarðvinnuverktaki, Sigurjón Hjartarson, gætti þess vel að grafa ekki utan graftarmarka og að því að raska ekki svæðum utan þeirra. Aðkomuleiðir að grunninum og vinnuslóðar voru ennfremur staðsett í framtíðarstæðum stíga að húsinu. Allur uppgröftur var endurnýttur, mold í landmótun og ræktun innan Sólheima, en annar uppgröftur í landmótun einvörðungu.

Við hönnun hússins miðaði svo arkitekt þess, Árni Friðriksson, við að húsið félli sem best inn í landið. Þak er tyrft og myndar það því samfellda heild við aðliggjandi tún. Litir hússins eru í jarðtónum sökum efnisvals utanhúss, húsið er tiltölulega lágreist og það samsvarar landhalla á þessum stað. Allt þetta gerir það að verkum að byggingin æpir ekki á athygli þess sem þar fer hjá, svo segja má að tilgangi um lágmarksröskun aðliggjandi umhverfis hafi náðst. Um hönnun lóðarfrágangs við Sesseljuhús sá Birgir Einarsson landslagsarkitekt.

Umhverfisvæn hönnun

Við hönnun umhverfisvænna bygginga er engin ein aðferð sem beita má við allar aðstæður. Öll byggingarefni geta talist bæði góð og slæm og fer það eftir því hvaða viðmiðun er notuð. Hefðbundin byggingarefni eru því miður í fæstum tilfellum umhverfisvæn. Hráefni hefur verið sótt úr jörðu eða höggvið úr skógum, framleiðsla veldur mengun andrúmslofts og mikil orka hefur verið notuð í framleiðsluferlinu. Að auki gefa sum efni frá sér mengandi efni eftir að þeim hefur verið komið fyrir og önnur valda spjöllum þegar líftími þeirra hefur runnið sitt skeið.

Til æskilegra kosta byggingarefna teljast þeir kostir að efnið sé sótt úr endurnýjanlegri auðlind, lítilli orku hafi verið veitt í vinnslu þess, mengun í framleiðslu sé lítil, ekki sé um að ræða mikið frákast og að efnið sé skaðlaust heilsu manna.

Við hönnun Sesseljuhúss var efnisvali hagað þannig að öll efni sem notuð voru í byggingunni eru æskilegir valkostir í umhverfislegu tilliti. Áhersla var einnig lögð á notkun endurnýjanlegra orkugjafa og umhverfisvæna meðhöndlun frárennslis.

Hönnun

Allar verklegar framkvæmdir, hvort sem um er að ræða húsbyggingar eða önnur mannvirki, hafa mikil áhrif á sitt nánasta umhverfi, bæði á framkvæmdatíma og á líftíma mannvirkisins. Æskilegt er í umhverfislegu tilliti að lágmarka þessi áhrif og var það haft að leiðarljósi við hönnun og smíði Sesseljuhúss.

Reynt var að halda uppgreftri í algeru lágmarki og gætti Sigurjón Hjartarson jarðvinnuverktaki þess vel að grafa ekki utan graftarmarka og raska ekki svæðum utan þeirra. Aðkomuleiðir að grunninum og vinnuslóðar voru ennfremur staðsett í framtíðarstæðum stíga að húsinu. Allur uppgröftur var endurnýttur, mold í landmótun og ræktun innan Sólheima, en annar uppgröftur í landmótun einvörðungu.

Þar sem hönnunarforsendur Sesseljuhúss voru þær að húsið skyldi teljast umhverfisvænt voru ekki valdar óvistvænar útfærslur í hönnun þegar þess var nokkur kostur. Í öllu hönnunarferlinu var ávallt leitað að hagkvæmustu, vistvænu lausninni að teknu tilliti til íslenskra aðstæðna.

Hönnun Sesseljuhús

Við hönnun Sesseljuhúss miðaði arkitekt þess, Árni Friðriksson, við að húsið félli sem best inn í landið. Þak er tyrft og myndar það því samfellda heild við aðliggjandi tún. Litir hússins eru í jarðtónum sökum efnisvals utanhúss, húsið er tiltölulega lágreist og það samsvarar landhalla á þessum stað. Allt þetta gerir það að verkum að byggingin æpir ekki á athygli þess sem þar fer hjá, svo segja má að tilgangi um lágmarksröskun aðliggjandi umhverfis hafi náðst.

Um hönnun lóðarfrágangs við Sesseljuhús sá Birkir Einarsson landslagsarkitekt. 

Byggingarefni

Öll byggingarefni sem notuð voru í Sesseljuhúsi eru æskilegir valkostir í umhverfislegu tilliti. Áhersla var lögð á notkun endurnýjanlegra orkugjafa og umhverfisvæna meðhöndlun frárennslis. Tekið var tillit til uppruna efnis, framleiðslu og endurnýtingu þess og miðað við íslenskar aðstæður því í fræðum um sjálfbærar byggingar fyrirfinnst engin ein aðferð sem beita má óháð umhverfi.

Timbur

Flest virðist benda til þess að timbur sé umhverfisvænasta almenna byggingarefnið sem völ er á. Timbur er fengið úrendurnýjanlegri auðlind og er afrakstur sólarorku. Að auki framleiða tré súrefni og nota til þess koldíoxíð, CO2 úr andrúmsloftinu. Því er hvorki mikil mengun eða orkunotkun samfara notkun timburs.

Þó getur ekki öll notkun timburs talist umhverfisvæn. Kemur þá helst tvennt til. Í fyrsta lagi þarf að taka tillit til þess hvaðan timbrið kemur því það verður að vera úr endurnýjanlegum skógi til að teljast umhverfisvænt. Í endurnýjanlegum skógi er nýjum trjám plantað í samræmi við skógarhögg. Í öðru lagi verður að huga að því hvernig timbrið er fúavarið. Flest hefbundin fúavarnarefni eru mjög óumhverfisvæn. Til eru óhefðbundnar leiðir til fúavarnar sem ekki skaða umhverfið.

Timbur sem byggingarefni býr yfir ágætum eiginleikum. Togstyrkur þess er hár og það er sveigjanlegt. Burðargrind Sesseljuhúss er að mestu úr timbri og veggir eru einnig klæddir með því. Límtré var einnig notað í burðargrind Sesseljuhúss. Kostir þess eru margir, meðal annars þeir að í límtré eru notaðir hlutar trjáa sem annars ekki nýtast (small section timber) og að límtré spannar stór höf. Límið sem notað er við framleiðslu límtrés er raunar ókostur en þar sem límið sem notað er í límtré inniheldur ekki mikið formaldehýð er sá ókostur ekki mjög veigamikill. Timbur í Sesseljuhús var fengið frá BYKO en límtréð frá fyrirtækinu Límtré.

Timbur Sesseljuhús

Málning

Öll málning inniheldur leysiefni. Leysiefni, eins og nafnið bendir til, leysast upp með útgufun. Þessi útgufun veldur því að málning þornar eftir að hún hefur verið borin á. Vegna þessarar útgufunar losna efnasambönd leysiefnanna út í aðliggjandi loft sem fólk andar svo að sér.

Lítið hefur verið um notkun lífrænnar málningar á Íslandi. Lífræn málning inniheldur náttúruleg leysiefni, ólíkt olíumálningu og vatnsmálningu sem eru að auki báðar slæmar hvað varðar mengun í framleiðslu. Lífræn málning gefur mun minna frá sér af leysiefnum eftir notkun en olíu- og vatnsmálning, auk þess sem hún brotnar eðlilega niður í náttúrunni. Öll málning í Sesseljuhúsi er frá fyrirtækinu Livos sem hefur um árabil framleitt vörur sem unnar eru úr 100% náttúrulegum hráefnum. Þ. Þorgrímsson flytur inn vörur Livos til Íslands.

Pappírseinangrun

Í einangrun þaks í sýningarskála Sesseljuhúss var notuð pappírseinangrun. Uppistaðan í pappírseinangrun er sellulósi en svo nefnast trefjar trjáa og plantna. Um er að ræða endurunnið efni en pappírseinangrun er framleidd úr afgangsbirgðum dagblaða, bóka og símaskráa. Bækurnar og blöðin eru einfaldlega tætt og síðan meðhöndluð með Boraxi á sama hátt og lambsullareinangrunin. Útkoman verður einangrunarefni með hátt brunaþol sem litla orku þarf til að framleiða og myndað er úr endurunnu efni, efni sem annars yrði að farga. Pappírstætlunum er síðan þjappað saman í bagga til að einfalda flutning og gera hann hagkvæmari.

Pappírseinangruninni er komið fyrir í hólfum húsa með aðstoð blástursvéla sem í senn losa um pappírstætlurnar í böggunum með aðstoð snúningsblaða. Efninu er blásið um langa slöngu, ekki ósvipaðri ryksugubarka, og leiðir hún einangrunarefnið þangað sem koma á því fyrir, í tilfelli Sesseljuhúss í loft sýningarskálans og hluta veggja.

Skilin voru eftir göt fyrir stút barkans á blástursvélinni í loftinu og var þeim svo lokað eftir að búið var að fylla holrými með pappírseinangrun. Sprauta má einangrun í veggi áður en þeim er lokað. Pappírseinangrun má einnig nota í gólf þótt ull hafi verið notuð í Sesseljuhúsi.Auk eingrunar með pappír og með lambsull var einangrað með hör í eitt veggbil hússins.

Pappírseinangrun Sesseljuhús

Ullareinangrun

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um ágæti íslensku ullarinnar þegar kemur að klæðnaði og ábreiðum. Ullin er hlý, hún blotnar seint og þó hún blotni heldur hún engu að síður áfram að vera hlý. Það að einangra hús með lambsull er hinsvegar ekki algengt og fólk þekkir því síður kosti þess. Sagt er að glöggt sé gests augað og á það vel við í þessu tilfelli, sá sem fyrstur varð til að nota íslenska lambsull til einangrunar húss hér á landi á okkar tímum, var aðfluttur Íslendingur að nafni George Hollanders.

Fyrirtækið Ístex lagði til íslensku lambsullina sem notuð var í einangrun gólfa og veggja Sesseljuhúss. Alls voru notuð 3.870 kg af ull sem samsvarar ull af um það bil 2.400 kindum. Notuð var ull af flekkóttu fé sem hefur jafngott einangrunargildi og hvít ull en hentar síður í hefðbundna ullarvöru framleiðslu.

Ullin var lítið unnin, hún var þvegin við 45°C í vatni með léttsóda sem er áþekkur matarsóda. Sódinn hefur þann eiginleika að hann myndar náttúrulega sápu þegar hann kemst í samband við fituna í ullinni. Því næst var ullin þvegin með umhverfisvænni sápu, hún skoluð tvisvar sinnum og þurrkuð. Áður en ullin var kembd, var hún soðin í háþrýstipotti með blöndu af vatni og Borax-salti, sem hindrar ágang skordýra og möls. Steinefnið borax hefur til margra alda verið notað til að fúaverja timbur. Samkvæmt bandaríska skógareftirlitinu er steinefnið Borax skaðlaust mönnum og dýrum og er m.a. notuð sem áburður. Borax nýtist ekki aðeins sem fúa-, skordýra- og nagdýravörn heldur eykur það einnig brunaþol ullarinnar, þannig að hún stenst gildandi staðla í Evrópu. Ullin var síðan kembd í kembivél og kembunni rúllað upp og pakkað í strigapoka. Með þessu móti fæst 100% náttúrulegt einangrunarefni sem krefst ekki hlífðarbúnaðar af neinu tagi þegar verið er að koma því fyrir.

Einangrunargildi ullar er svipað og fyrir þurra steinull, en ef raki kemst í einangrunina hefur kindaullin mikla yfirburði. Ull af kindum hefur nefnilega þann eiginleika að geta dregið í sig raka sem nemur allt að 1/3 af eigin þyngd án þess að tapa einangrunargildi sínu. Ullin losar sig svo við rakann þegar loft er þurrara og hjálpar þannig til við að halda rakastigi hússins jöfnu. Hún gerir það án þess að rakinn þéttist eins og ef um efni sem hrinda frá sér vatni væri að ræða.

Stór kostur við ullina er einnig sá að orkan sem fer í framleiðslu ullareinangrunar er hverfandi miðað við flest önnur einangrunarefni. Nýlegar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að keratín, efni sem finnst í ull, eyðir hættulegum efnum til dæmis formaldehýði, ósoni og ýmsum leysiefnum sem finnast í nútíma byggingarefnum. Vegna þessara eiginleika hefur ullin í auknu mæli verið notuð erlendis til að bæta andrúmsloft í opinberum byggingum sem valda húsasótt (sick-building syndrome), meðal annars í sjúkrahúsum, dagheimilum og skólabyggingum. 

Raflagnir og lýsing

Við hönnun raflagna og val á búnaði í Sesseljuhúsi var leitast við að taka tillit til umhverfissjónarmiða, þ.e. notuð væru sem náttúrulegust efni með lágu orkuinnihaldi, að nýting orku væri sem best og að efni væru að mestu endurvinnanleg. Lagnaleiðir og strengir voru hafðar sem stystar til að lágmarka efnismagn og strengjastigar gerðir úr timbri sem er nýjung.

Lampar voru fyrst og fremst valdir með það í huga að orkunýting væri góð en einnig lögð áhersla á þægindi þeirra sem starfa og heimsækja Sesseljuhús. Lýsingu er auðvelt að breyta með breyttum áherslum í notkun hússins. Um raflagnir sá fyrirtækið Fossraf á Selfossi. Lampar voru fengnir frá fyrirtækjunum Smith og Norland og frá GH Heildverslun.

Sesseljuhús er fyrsta samtímabyggingin á Íslandi sem er 100% laus við polývínýlklóríð (PVC). PVC er talið óvistvænt, það krefst mikillar orku í framleiðslu og í það eru notaðar óendurnýjanlegar auðlindir, olía og gas. Að auki er ekki hægt að endurvinna PVC, það leysist ekki upp náttúrulega að líftíma þess loknum og getur verið skaðlegt heilsu manna. Útgufun frá efninu er talin geta valdið krabbameini, öndunarsjúkdómum og húðsjúkdómum. Við brennslu gefur PVC frá sér banvæn efnasambönd.

Raflagnir og lýsing Sesseljuhús

Rekaviður

Sesseljuhús er allt klætt að utan með íslenskri viðarklæðningu sem framleidd úr rekaviði úr fjöruborðinu á Ströndum. Rekaviðarklæðning er sú umhverfisvænasta sem völ var á, í fyrsta lagi er efnið frákast og því verið að nýta efni sem annars færi forgörðum. Í öðru lagi hefur volk í sjónum gert það að verkum að viðurinn í klæðningarborðunum er saltmettaður og krefst því ekki frekari viðarvarnar.

Talið er að rekaviðurinn berist alla leið frá ströndum Síberíu, aðallega frá stórfljótum Síberíu eða Ob, Jenisej, Katanga og Lena. Norðaustlægir yfirborðsstraumar bera rekaviðinn til hafs þar sem hann er óratíma að veltast um í sjónum áður en honum skolar á land. Honum rekur frá Síberíu þar til hann nær hafísnum sem hann fylgir svo umhverfis Norðurpólinn á 4 – 5 árum. Lengst úti á Norðuríshafi losnar timbrið svo úr viðjum íssins og berst að landi með straumum og vindum. Eftir þetta langa ferðalag er viðurinn orðinn gegnsýrður af salti sjávar og hefur þannig fengið náttúrulega vörn gegn fúa. Rekaviður er því oft á tíðum afbragðs smíðaviður.

Aðallega er um að ræða furu, lerki og lítið eitt af greni og ösp. Talið er að rekhraðinn sé um 400 – 1.000 km á ári. Víða norðanlands eru fjörur „hvítar“ af rekaviði þótt mikið af viðnum sökkvi til botns áður en hann nær Íslandsströndum. Elstu tré, sem rekur eru allt að 500 ára gömul miðað við árhringi. 
Úlfar Eyjólfsson frá Krossnesi og Sigursteinn Sveinbjörnsson frá Litlu-Árvík sáu um gerð rekarviðarklæðningarinnar.

Rekaviður Sesseljuhús
Rekaviður Sesseljuhús

Viðarvörn

Oftar en ekki er sú viðarvörn sem borin er á timbur mynduð úr eitruðum efnasamböndum. Meðal virkra efna í viðarvörn eru PCP og fleiri sambönd sem ætlað er að drepa lífverur og gróður sem herjað geta á timbrið. Vegna þessara eitruðu eiginleika geta slík efni einnig haft skaðleg áhrif á menn, raskað erfðavísum og truflað eðlilega starfssemi ensíma þeirra.

Árið 1998 var sett í lög hérlendis reglugerð um notkun, og bann við notkun tiltekinna efna í viðarvörn. Samkvæmt henni er bannað að flytja inn, selja eða nota viðarvörn sem í er að finna kvikasilfurssambönd eða arsensambönd. Einnig er bönnuð viðarvörn sem inniheldur of há hlutföll af öðrum eitruðum efnasamböndum. Að auki er óheimilt að flytja inn, selja og dreifa timbri sem hefur verið meðhöndlað með þessum efnum svo og notkun þess í endurvinnslu.

Viður sem óumhverfisvæn viðarvörn hefur verið borin á gefur einnig frá sér skaðlegar eiturgufur þegar hann er brenndur. Það sem meira er um vert er sú staðreynd að askan sem myndast við bruna slíks viðar er baneitruð og því vandkvæðum bundið að losna við hana á einfaldan hátt. Þar sem virku efnin í viðarvörn eru ekki vatnsleysanleg verður oftast að nota leysiefni sem einnig hafa skaðleg áhrif á umhverfið og mannskepnuna við uppgufun. Fáar rannsóknir hafa því miður verið gerðar á samlegðaráhrifum þessara tveggja slæmu þátta viðarvarnar.

Í Sesseljuhúsi er viður hússins að innanverðu borinn jurtaolíu frá þýska fyrirtækinu Livos sem hefur sérhæft sig í gerð umhverfisvænnar málningar um 25 ára skeið. Vörur Livos bera stimpil Evrópusambandsins sem vottar að framleiðsluferlið sé náttúruvænt enda einungis notast við lífræn leysiefni.

Gólfefni

Gólfefni sem valin voru til notkunar í Sesseljuhúsi eru fernskonar.

Linoleum gólfdúkur frá Hollenska fyrirtækinu Forbo sem er einvörðungu unninn úr náttúrulegum efnum og hefur hlotið vottun sem umhverfisvæn vara. Fyrirtækið Kjaran ehf flytur inn vörur Forbo til Íslands

Gúmmíhellur úr endurunnum hjólbörðum frá Gúmmívinnslunni á Akureyri

Íslenskar grágrýtishellur sem Steinsmiðja S. Helgasonar sá um að gera

Parket sagað úr íslensku lerki úr Guttormslundi í Hallormsstaðarskógi en lerkið var gróðursett árið 1936. Lerkifjalirnar eru unnar af fyrirtækinu Húsavík-Harðviður og er það fyrsta gólfefnið sem það vinnur úr íslenskum trjábolum

Gólfefni Sesseljuhús

Loftræsing

Eitt af því sem hefur mikla þýðingu við hönnun umhverfisvænna bygginga er loftræsing þeirra. Við hönnun loftræsingar í Sesseljuhús var eftirfarandi haft að leiðarljósi:

Hreint og gott loft innanhúss

Þægilegt hitastig innanhúss

Lágmarks orkunotkun

Hönnun miðaði einnig að því að nota einungis efni sem óskaðleg eru heilsu manna, að loftræsing yrði lághraða (displacement) og að nota stýringar til að lágmarka orkunotkun og koma í veg fyrir sóun.

Loftræsikerfið er svokallað blandað kerfi (hybrid system) en þá er loftræsing ýmist drifin áfram af náttúrlegum kröftum eða með aðstoð viftu. Viftan er einungis notuð þegar kringumstæður eru mjög óhagstæðar, eða þegar hiti fer yfir 15° í ákveðinni vindátt sem ekki er ríkjandi á svæðinu. Miðað við óbreyttar veðurfarsaðstæður á Sólheimum má gera ráð fyrir að viftan verði ekki notuð nema í undantekningartilfellum, undir 5% af tímanum sem húsið er í notkun.

Loftræsing

Til að skilja kerfið örlítið betur er gott að hafa í huga að af fólki stafar bæði hiti og mengun í formi CO2. Loftræsikerfið veitir fersku lofti inn í húsið, lofti sem er 2 til 5 gráðum kaldara en innihitinn. Ferska loftið leitar inn í Sesseljuhús gegnum inntaksvirki aftan við bygginguna. Frá því er það leitt undir húsið gegnum stórt rör og hitnar loftið örlítið á þeirri leið. Eftir að rörinu sleppir er loftið er svo forhitað með aðstoð varmaskiptis. Þá er því hleypt undir gólf hússins og leitar það svo upp um ristar í gólfunum. Loftstraumurinn er hægur og er hiti loftsins ávallt aðeins lægri en hitastigið inni í byggingunni. Loftið dreifir úr sér þegar það rís upp um ristarnar og stígur upp þegar það mætir fólki eða öðrum varmagjöfum.

Kerfið kallast lághraða þar sem loftstraumurinn fer sér hægt, þ.e. ekki er blásið inn af neinum krafti. Þegar ferska loftið leikur um fólk og inniviði rýma, hitnar það og stígur upp á við. Á leið sinni upp hreinsar það mengunina sem fyrir er og dregur hana með sér upp, undir loft. Þar leitar loftið sem nú er orðið óhreint, út um þaktúður eða -háfa. Allt gerist þetta fyrir tilstilli hitastigsbreytinga og stundum vinda. Því verða til hæðarskil í húsinu, fyrir ofan þau er heitt loft af slæmum gæðum en fyrir neðan skilin er loftið hreint, ferskt og við þægilegt hitastig. Reiknað var út að skil þessi liggja vel fyrir ofan höfuð fólks í Sesseljuhúsi. Gestir þar eru því staddir í þægilegu umhverfi, bæði hvað varðar hitastig innanhúss og loftgæði.

Loftræsing af þessari gerð er talin vera um 40% áhrifameiri en hefðbundið loftræsikerfi sem byggir á loftblöndun. Því þarf að veita minna af fersku lofti inn sem hefur í för með sér lægri hitunarkostnað og tilheyrandi orkusparnað. Orkusparnaður næst einnig fram við það að nota varmastreymi sem stafar frá fólki og öðrum hitagjöfum innanhúss sem einskonar mótor til að drífa loftið upp og út.

Eins og áður sagði grípur svo lágþrýst, orkusparandi vifta inn í þegar skilyrði eru óhagstæð, þ.e. þegar náttúrleg öfl eins og vindur og hitastigsbreytingar duga ekki til að sjá húsinu fyrir hreinu og góðu lofti. Um smíði og uppsetningu loftræsikerfis sá fyrirtækið Þ H Blikk á Selfossi.

Loftræsikerfi

Frárennsli

Frá árinu 1999 er skylt að hreinsa allt fráveituvatn á Íslandi. Hefðbundnar skólphreinsistöðvar hreinsa smitandi efni svo meðhöndlað vatn mengi ekki vötn og ár. Í náttúrlegum hreinsivirkjum er næringarefnum skólps að auki skilað aftur til náttúrunnar. Á Sólheimum er starfrækt fyrsta náttúrlega hreinsivirkið á Íslandi. Um er að ræða svokallað „tilbúið votlendi“ . Er það samansett úr nokkrum þrepum sem hafa þann tilgang að skila skolpi staðarins hreinu frá sér að þeim loknum.

Fyrsta hreinsunarþrepið er rotþró þar sem forhreinsun skolps fer fram. Þaðan er affallið leitt gegnum næstu þrep sem samanstanda af fjórum reitum af tilbúnu votlendi sem meðal annars eru mynduð úr hinum ýmsu íslensku votlendis plöntum . Votlendi sem vistkerfi tekur upp mikið magn næringarefna vegna mikillar grósku og framleiðni og er það því kjörið til hreinsunar skolps.

Í tilbúnu votlendi eru næringarefni sem finna má í skólpi nýtt um leið og hreinsun skolpsins fer fram. Þar myndast fljótlega vistkerfi sem samanstendur af plöntum, örverum og smádýrum og fellur inn í aðliggjandi landslag og umhverfi. Um er að ræða vistvæna fráveitu sem aukinheldur er ódýr og einföld.

Í Sesseljuhúsi var ákveðið að halda áfram brautryðjandastarfi Sólheima í frárennslismálum og miða enn frekar að fullkomlega vistvænu fráveitukerfi. Markmiðið var að skila öllu skolpi frá húsinu út í náttúruna, hreinu og án þess að valda nokkurri mengun. Í því skyni var sett upp svokölluð skolpskilja sem ekki hefur þekkst áður hérlendis.

Skolpskiljan eða „Aquatron“ hefur það hlutverk að aðskilja fast skolp frá fljótandi skolpi og breyta föstu skolpi með náttúrulegu niðurbroti í gróðurmold.
Skýringarmyndin fyrir neðan sýnir hvernig skolpskiljan virkar:

Skolpskiljan (1) er tengd öllum klósettum í Sesseljuhúsi, 5 alls. Skolp úr þeim er leitt að skiljunni gegnum frárennslispípur

Skolpið úr klósettunum (2) skolast gegnum skilju sem aðskilur fast skolp frá fljótandi. Aðskilnaður er um 98%. Ekki er um að ræða neinn vélbúnað, aðskilnaðurinn á sér stað fyrir tilstilli miðflóttaafls

Fast skolp og klósettpappír (3) falla ofan í hólf þar sem náttúrulegt niðbrot þess á sér stað með aðstoð orma. Ormarnir brjóta efnið niður í um 5% af upphaflegu rúmmáli þess. Safnþrærnar eru fjórar og er þeim snúið þannig að nýtt hólf tekur við á um þriggja mánaða fresti. Að ári liðnu er úrgangurinn í fyrsta hólfinu orðinn að gróðurmold sem nota má við ræktun

Fljótandi skolpi (4) er veitt að tilbúna votlendinu sem sér um að hreinsa það og skila því út í náttúruna, hreinu og tæru.

Frárennsli

Orkunotkun

Víða erlendis er notkun endurnýjanlegrar orku talin skipta miklu í umhverfisvænni hönnun. Ísland býr að þeirri sérstöðu að stærsti hluti raforku sem framleidd er hérlendis er fengin frá vatnsaflsvirkjunum þar sem orka er unnin úr endurnýjanlegri auðlind. Á sama hátt er megnið af orkunni sem notuð er til húshitunar hérlendis umhverfisvæn, fengin úr jarðvarma.

Raforkunotkun á hvern íbúa á Íslandi er með því hæsta sem gerist í heiminum. Þetta má að mestu skýra með orkufrekri stóriðju en almenn orkunotkun íslenskra heimila er einnig mjög mikil. Þurfum við þá nokkuð að spara? Jú, með því að nýta innlenda raforku betur sparast auðlindir landsins og meira fæst út úr þeim fjárfestingum sem liggja í orkumannvirkjum landsins. Það eitt að eiga nægtir einhvers réttlætir ekki sóun og voru sjónarmið orkusparnaðar því hafði að leiðarljósi við alla hönnun kerfa í Sesseljuhúsi.

Öll orka sem notuð er í Sesseljuhúsi er fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Um er að ræða raforku frá vatnsaflsvirkjunum, varmarafala og sólarrafhlöðum ásamt varmaorku frá hitaveitu Sólheima, auk vindmyllu. Öll orka sem notuð er, eða er framleidd, í Sesseljuhúsi er mælanleg og sett var upp hlaupandi skráning á orkunotkun og orkuframleiðslu. Skráning er sett fram á orkuskjá sem gerir gestum kleift að átta sig án fyrirhafnar eða mikillar þekkingar á því hversu mikil orka hefur verið notuð og/eða framleidd. 

Orkunotkun

Ársnotkun orku í heiminum eru rúmlega 1 x 1014 kWh. Helstu orkugjafar eru olía (40%), kol (23,3%) og jarðgas (22,5%). Orka frá vatnsaflsvirkjunum nemur 7% og 6,5% koma frá kjarnorkuverum. Langminnst er svo fengið frá öðrum orkugjöfum eins og jarðvarma, vindi og sól eða 0,7%. Á Íslandi er hins vegar 70% orkunnar sótt til endurnýjanlegra auðlinda en 30% fæst úr olíu og kolum.

Orkustofnun Bandaríkjanna (US Department of Energy) telur að orkuþörf mannkyns muni aukast um 59% á næstu 20 árum. Ekki veit það á gott, samfara þessari aukningu eykst árlegur útblástur koltvísýrings úr 5,8 milljörðum tonna í 9,8 milljarða tonna árið 2020.

Húshitun

Kynding húsa krefst mikillar orku, að minnsta kosti á norðlægum slóðum. Á Íslandi er jarðvarmi nýttur bæði til upphitunar á húsum og til rafmagnsframleiðslu og hafa um 90% Íslendinga aðgang að hitaveitu, hinir nota rafmagnshitun. Um fjórðungur af allri orkunotkun á Íslandi fer til húshitunar. Ef önnur orka en sú sem við vinnum úr jarðvarma væri notuð til húshitunar hér á landi væri mengun á Íslandi mun alvarlegra vandamál en við þekkjum í dag.

Sólheimar eiga sína eigin hitaveituborholu og er heitt vatn úr henni notað við alla húshitun innan svæðisins og í heitt kranavatn. Sesseljuhús er þar engin undantekning, húsið er hitað með hefðbundnu ofnakerfi og hluti þess með gólfhitakerfi. Ekki var ástæða til að bruðla með hitann sem við svo heppilega eigum og var því kappkostað við að nýta hann vel í Sesseljuhúsi. Liður í því var að lágmarka hitatöp, húsið er vel einangrað og að auki var hágæða einangrunargler frá Íspan sett í alla glugga hússins.

Við hönnun hitakerfis í Sesseljuhúsi var takmarkið meðal annars að nýta varmann frá hitaveituvatninu sem best. Því var heita vatninu stýrt í gegnum notkunarkeðju með nokkrum þrepum. Í hverju þrepi er vatnið tekið inn við ákveðið hitastig og skilað yfir á það næsta einhverjum gráðum lægra vegna nýtingar varmans. Notkunarkeðjan grundvallast á því að hvert þrep þarfnast heits vatns við ólík hitastig. Varmi frá hitaveitu er notaður í framleiðslu rafmagns, í kranavatn, til hitunar lofts vegna loftræsingar og til húshitunar bæði í ofna- og gólfhitakerfi. Varminn er einnig notaður til snjóbræðslu utanhúss.

Ofnar í Sesseljuhús voru framleiddir af Ofnasmiðju Reykjavíkur en hjá fyrirtækinu Tengi fengust allar vatns og pípulagnir sem notaðar voru innanhúss.

Húshitun

Sólarorka

Orkan sem berst til Jarðar frá sólu á einni klukkustund nemur árlegri heildarorkuþörf alls mannkyns. Orkan í sólarljósinu er í raun uppspretta flestra annarra orkugjafa jarðar. Sólarorka er drifkrafturinn í veðrakerfum jarðarinnar og því er vind- og vatnsorka í raun tilkomin vegna hennar. Það sama gildir um orku sem mynduð er við brennslu trjáa og plantna því orkan sem þar losnar er sólarorkan sem plönturnar beisluðu við uppvöxt sinn. Einnig á þetta við um olíu, kol og gas, þessir orkugjafar myndast á milljónum ára úr jurtaleifum og því fyrir tilstilli sólar.

Sólarsellur umbreyta orku sólarljóss í raforku á þann hátt að hálfleiðandi efni í þeim, oftast kísill, dregur til sín hluta þess ljóss sem fellur á sellurnar. Orka ljóssins flyst við það til hálfleiðarans og losar um rafeindir sem mynda síðan rafstraum. Með því að koma fyrir málmþynnum ofan og neðan við hverja sellu er svo hægt að ná rafmagninu út úr sellunni og nota það.

Sólarsellur eins og gefur að skilja, framleiða ekki rafmagn nema ef sólarljós kemur til. Því er ekki um rafmagnsframleiðslu í myrkri að ræða. Í Norður-Evrópu hefur reynslan sýnt að full afköst sólarsella nást um 10% tímans í meðalári en á Íslandi má búast við aðeins lægri nýtingarhlutfalli eða um 9%.

Í Sesseljuhúsi er verið að koma fyrir stærstu sólarsellusamstæðu á Íslandi, 16 sólarsellum sem hver er 140 W, alls því 2,24 kW. Ef miðað er við nýtingarhlutfallið 9% af fullum afköstum ætti hún að framleiða á einu ári:

9% x 365 d/ári x 24 klst/dag x 2,24 kW = 1766 kWh

Til þess að átta sig á þessari tölu má nefna að ísskápurinn í Sesseljuhúsi eyðir 142 kWh á ári (skv. framleiðanda). Því gæti ársframleiðsla sólarsellanna séð 12 slíkum ísskápum fyrir rafmagni í heilt ár. 

Varmarafali

Í Sesseljuhúsi verður sett upp mjög sérstakt tæki til rafmagnsframleiðslu. Um er að ræða varmarafala, en íslenska fyrirtækið Varmaraf hefur þróað varmarafalann gagngert til þess að breyta varmastreymi milli heits og kalds vökva í rafmagn. Þetta hefur áður verið reynt en með hönnun hins íslenska rafala hefur náðst betri virkni í útfærslu en hingað til hefur þekkst. Varmarafali er ekki flókið tæki en krefst góðrar hönnunar. Nýtni er nokkurn veginn í réttu hlutfalli við hitastigsmuninn milli heitrar hliðar rafala og kaldrar hliðar. Við 70°C hitastigsmun er nýtnin um 3%.

Varmarafalar hafa verið notaðir í ýmsum sérhæfðum tilgangi, þeir eru notaðir til að knýja mælitæki á jöklum og annars staðar fjarri byggð. Þekktasta hagnýting varmarafala er í geimförum sem kannað hafa ystu mörk sólkerfisins. Þar er ekki næg sól til að gagn sé af sólarrafala en í staðinn er notaður varmarafali þar sem geislavirk efni mynda heitu hliðina og geimurinn skapar kælingu.

Varmarafalar eru áhugaverð nýjung á sviði bættrar orkunýtingar og umhverfisverndar. Víða í náttúrunni og í vélbúnaði er að finna varma sem ekki er nýttur til fulls. Jarðhitavatn kólnar og vélar eru kældar með vatnskössum, sjókælum og varmaskiptum. Þarna er um mikið afl að ræða sem virkja má með varmarafmagni.

Á Íslandi bjóða varmarafalar upp á mörg tækifæri vegna jarðhitans sem hér finnst. Þeir eru einnig tilvaldir til framleiðslu rafmagns í fiskiskipum þar sem hiti frá vélum er ónýttur. Hér á Íslandi hefur varmarafali ákveðna kosti fram yfir sólarrafala. Varmarafali getur framleitt rafmagn stöðugt meðan sólarrafali gagnast ekki á nóttunni þegar sól ekki skín og er lítils megnugur á rigningardögum. Í tilfellum þar sem varmarafali gengur fyrir heitu vatni sem nýtt er áfram eða ekki þarf að greiða fyrir eftir mæli má segja hann hagkvæmari kost en sólarrafala.

Þakfrágangur

Þak Sesseljuhúss er klætt nýjum, vistvænum þakdúk frá norska fyrirtækinu Protan. Meginhluti þaksins er einangraður að utanverðu, beint á dúkinn, með sérstaklega þéttri steinull. Ofan á ullina er svo lagt torf sem er því einnig hluti af einangrun þaksins. Hluti þaksins, þ.e. á sýningarskála, er svo byggður upp á hefðbundinn hátt og er einangrað í sperrubil. Einangrunin þar er hins vegar óvenjuleg, nefnilega fínmulinn pappír, án ertandi trefja eða efna

Íslenska steinullin er sú eina sinnar tegundar í heiminum sem framleidd er án þess að brennsla kola komi til. Ennfremur eru hráefnanámur Steinullarverksmiðjunnar að finna í fjöruborði og sér sjórinn um að viðhalda sandi jafnóðum og hann er fjarlægður til vinnslu. Því er engin sjónmengun af hráefnisvinnslunni þrátt fyrir 18 ára starfssemi, ólíkt því sem þekkist annarsstaðar.

Um þakfrágang sá fyrirtækið Fagtún.

Þakfrágangur
Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!