Menu
Menu
parallax

Hugmyndafræðin

Kjarninn

Starf Sólheima byggir á grunni sem Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir lagði, grunni sem mótaður er af íslenskum veruleika í byrjun 20. aldar, mannspeki Rudolf Steiner og kristilegum gildum. Hugmyndafræði Dr. Karls König og Global Eco-village Network og nálganir Järna í Svíþjóð eru meðal þeirra þátta sem einnig hafa áhrif á hugmyndafræði Sólheima í dag. Dr. König, eins og Sesselja, lagði ríka áherslu á að fólk með sérþarfir deildi jöfnum kjörum með öðru fólki í leik sem starfi.

Kjarni hugmyndafræði Sólheima er hinn sami og lagt var upp með þann 5. júlí 1930: að veita einstaklingum tækifæri. Sólheimar skapa hverjum einstaklingi sem þar býr tækifæri til að vaxa, þroskast og að vera nauðsynlegur og virkur þátttakandi í samfélaginu.

Það hefur alla tíð verið mjög breytilegt hverjir hafa haft mesta þörf fyrir þau tækifæri sem Sólheimar hafa upp á að bjóða og þannig verður það um ókomna tíð. Það er jafn brýnt nú eins og það var árið 1930 að skoða samfélagið sem við búum í og hlusta eftir hverjir það eru sem mesta þörf hafa fyrir tækifæri á Sólheimum.

Kjarninn

Tækifæri skulu boðin til nýrra hópa og einstaklinga sem fá ekki sambærileg tækifæri annars staðar. Styrkur samfélagsins að Sólheimum felst í fjölbreytni ekki einhæfni. Forsendan er þó ætíð að þjónustu þegar séu ekki meirihluti íbúa heldur þvert á móti minnihluti af heildarfjölda íbúa í byggðahverfinu. 

Hugtakið sem best lýsir Sólheimum er “öfug blöndun” þ.e. blöndun þar sem samfélagið er byggt upp með þarfir “hins fatlaða / þess sem er að fá tækifæri” að leiðarljósi og hinn “ófatlaði” lagar sig að því samfélagi. Þetta er hið gagnstæða við “hefðbundna” blöndun. Fatlaðir munu ávallt vera þungamiðja samfélagsins að Sólheimum. Með meiri blöndun getur hinn fatlaði einstaklingur í auknum mæli orðið meira gefandi og leiðbeinandi í sínu eigin samfélagi.

Stefnumótun Sólheima

Hlutverkið

Hlutverk Sólheima er að skapa sjálfbært samfélag, byggt á kristnum gildum og hugmyndum mannspeki, sem veitir íbúum tækifæri til að vaxa, þroskast og vera virkur þátttakandi. Starfsemi okkar og aðstaða er sniðin að því að þjóna fólki með þroskahömlun sem býr yfir starfsgetu.

Við bjóðum gesti sérstaklega velkomna hvort sem þeir hafa áhuga á samfélaginu sjálfu, vilja nýta hugmyndafræði okkar til að bæta eigið líf eða vilja leggja okkur lið með beinum hætti eða í gegnum atvinnurekstur okkar. 

Gildi Sólheima

Virðing

Sýnum íbúum, aðstandendum og samstarfsfólki virðingu í samskiptum og öllu okkar starfi. Gefum okkur tíma til að hlusta, sýnum ólíkum skoðunum og þekkingu virðingu og nýtum til að læra. Sýnum ábyrgð gagnvart umhverfinu og leitum sífellt leiða til að viðhalda sjálfbæru samfélagi.

Fagmennska

Við leggjum okkur fram um að koma til móts við óskir þeirra sem við þjónum, vinna störf okkar af metnaði og samkvæmt viðurkenndum viðmiðum. Við erum hrein og bein í samskiptum og stöndum við skuldbindingar okkar.

Kærleikur

Umhyggja fyrir þeim sem við vinnum með byggist á kærleika sem hefur verið samofinn starfseminni frá stofnun. Erum jákvæð og höfum frumkvæði að því að rétta hjálparhönd ef þörf er á, hvort sem það beinist að þeim sem við þjónum eða samstarfsmönnum.

Sköpunargleði

Það er okkur kappsmál að viðhalda umhverfi sem er skapandi og einkennist af gleði. Við erum óhrædd við að fara nýjar leiðir til að ná meiri árangri og stuðla að vellíðan íbúa. Við hjálpumst að við að virkja sköpunarkraftinn í hverjum og einum.

Stefnumarkandi áherslur

Stöndum vörð um kjarnann - Árangur á völdum sviðum.

Verslun og kaffihús 

Tækifæri gesta til að kaupa upplifun, listmuni og kaup/neyta afurða úr lífrænni ræktun.

Lífræn ræktun 

Ræktum afurðir til eigin nota og til sölu hjá völdum samstarfsaðilum. Leiðum þróun á þessu sviði byggt á hugsjón Sesselju. 

Félagsþjónusta

Þjónusta við fatlaða, byggð á frumkvöðlastarfi Sesselju, með markmið um að þroskast og takast á við áskoranir í leik og starfi.

Ferðaþjónusta

Tökum á móti gestum sem vilja kynnast okkar samfélagi og/eða njóta staðarins á ferð sinni um Suðurland.

Styrktarsjóður

Varðveitum fjárhagslegan styrk sjóðsins til að stuðla að þróun og uppbyggingu svæðisins.

Framtíðarsýn Sólheima 2022

Við höfum fjölgað fötluðum íbúum í 50 og með nýliðun hefur fjöldi einstaklinga með starfsgetu tvöfaldast. Þeir sem nýta þjónustu okkar eru ánægðir og ímynd Sólheima meðal fagstétta og þjónustukaupa hefur tvöfaldast, mælt með hlutfalli jákvæðra í okkar garð. Mælingar á viðhorfi þjónustunotenda og aðstandenda eru komnar á styrkleika bil, yfir 4,2 með bættu verklagi, notkun markmiðsáætlana og kerfisbundnari mælingum á árangri.

Við höfum einfaldað atvinnurekstur á svæðinu með það að leiðarljósi að skera frá óhagkvæmar einingar og halda í það sem styrkir samfélagið og sérstöðu staðarins. Við leggjum okkur fram um að taka vel á móti gestum og fá stuðning þeirra við okkar góða starf. Með samstilltu átaki, góðum árangri og samvinnu við þjónustukaupa hefur okkur tekist að gera nýja samninga sem taka mið af okkar sérstöðu, koma rekstri félagsþjónustunnar í jafnvægi og gera atvinnureksturinn að tekjustofni sem styður uppbyggingu staðarins. Höfum viðhaldið höfuðstól styrktarsjóðs með hagsýni, ráðdeild og vali verkefna.

Stefnumótun Sólheima

Markvisst hefur verið unnið í þróun innri ferla og kerfa. Þannig tekst okkur að halda rekstrarkostnaði niðri án þess að það bitni á þjónustunni. Við höfum markvisst bætt ástand eigna, aukið nýtingu í ferðaþjónustu og fáum þar yfir 9 af 10 mögulegum í ánægju notenda. Við stöndumst viðmið í innri úttektum í gæðastarfi og höfum bætt upplýsingamiðlun um starfsemina og árangur til aðstandenda og opinberra aðila. Auknar mælingar á starfseminni hafa gert okkur mögulegt að takast á við áskoranir þegar þeirra verður vart og fagna sigrum með okkar fólki.

Við höfum horft til hugmynda Sesselju og innleitt gildi til að styðja þá menningu sem þarf í okkar þjónustumiðaða rekstri. Við höfum gert starfsánægju að sameiginlegu verkefni alls hópsins, aukið teymisvinnu og stuðning við hvert annað. Fagfólk í okkar starfsgreinum sækist eftir því að vinna á Sólheimum. 

Fötlun

Hver einstaklingur er einstakur með sína getu, sinn þroska og sína hæfileika.  Ávallt er horft á þau tækifæri sem búa innra með hverjum einstaklingi, ekki takmarkanir. Hverjum einstaklingi er mætt á þeim stað sem hann er hverju sinni og hann studdur til aukins þroska og hæfni.
Sérstaklega er hlúð að eldri borgurum Sólheima og þeim búið eins áhyggjulaust og ánægjulegt ævikvöld og hægt er.

Fötlun

Vinna

Vinna

Vinna er einn mikilvægasti þátturinn í lífi hvers og eins einstaklings. Sólheimar hafa lagt metnað sinn í að byggja upp mjög fjölbreytta atvinnustarfsemi. Atvinnu þar sem hver einstaklingur hefur tækifæri til að vinna krefjandi og spennandi verkefni, verkefni sem eru mikilvæg fyrir lífsgæði allra íbúa Sólheima.

Metnaður er lagður í að vinnustaðir séu frekar fámennir þannig að hver einstaklingur fái nauðsynlegan stuðning, geti axlað ábyrgð og þroskað þannig betur hæfni sína.

Félagsstarf

Öflugt félagsstarf er ein megin stoðin í starfi Sólheima. Félagsstarfið er byggt upp fyrir alla íbúa Sólheima, ekki sérstaka hópa. Að sjálfsögðu er veittur sá stuðningur sem þarf fyrir þá sem hann þurfa.

Fjölbreytt úrval félags- og menningarviðburða er í boði og er mikill fjöldi þeirra opinn fyrir gesti og gangandi. Félags- og menningarstarf er orðinn einn mikilvægasti þátturinn í að vinna með öfuga blöndun.

Menningarveisla Sólheima er orðinn fastur liður í starfi Sólheima og mjög fjölsótt hátíð. Hátíð sem stendur frá byrjun júní og fram í byrjun ágúst. Þar eru á boðstólnum tónleikar, listsýningar, myndasýningar, umhverfissýningar, skoðunarferðir og fleira og fleira. Menningarveislan er einstakt tækifæri fyrir íbúa Sólheima til að njóta þess sem gert er í samfélaginu ásamt því að vera vettvangur fyrir almenning að sækja Sólheima heim og sjá og njóta þess sem í boði er.

Félagsstarf
Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!