Menu
Menu

Umhverfismál

Umhverfismál

Starf Sólheima byggir á starfi og hugsjónum Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur, stofnanda Sólheima en hún heillaðist ung af kenningum Rudolfs Steiners. Sesselja var frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og er á meðal þeirra fyrstu á Íslandi sem létu sig umhverfismál varða. Einnig starfa Sólheimar eftir markmiðum byggða með skilgreind markmið (Intentional communities) og Alþjóðlegum samtökum sjálfbærra byggða (Global Ecovillage Network).

Markmið Sólheima er að skapa sjálfbært samfélag, byggt fólki sem leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Lögð er áhersla á sjálfbærar byggingar, eigin orkuöflun, lífræna ræktun, vinnslu afurða úr náttúrulegu hráefni og endurvinnslu. Rekstur fyrirtækja að Sólheimum skal taka mið af efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum áhrifum á samfélagið. 

Talið er að um 15 þúsund staðir og byggðahverfi í veröldinni hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Sólheimar eru fyrsti staðurinn á Íslandi sem hlýtur erlenda viðurkenningu sem sjálfbært byggðahverfi.

Við fengum jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar – við fengum hana að láni frá börnum okkar

Byggingar í sátt við náttúruna

Sesseljuhús er byggt sem sýningarhús um sjálfbæra byggingu. Val á byggingarefni í húsið er til fyrirmyndar frá umhverfissjónarmiði. Húsið er fyrsta samtímabyggingin á Íslandi sem er 100 % laus við PVC efni. Húsið er allt klætt að utan með íslenskri viðarklæðningu þ.e. rekavið. Málning innan dyra er lífræn jurtaolía. Veggir eru einangraðir með íslenskri lambsull, en þak með endurunnum pappír úr dagblöðum bókum og símaskrám.

Eigin orkuöflun

Sólheimar hafa eigin hitaveitu fyrir öll íbúðarhús, atvinnuhúsnæði og sundlaug. í Sesseljuhúsi eru sólarrafhlaða og vindmylla sem sjá húsinu fyrir hluta af orkuþörf þess.

Lífrænt fráveitukerfi

Á Sólheimum er fyrsta náttúrulega hreinsivirkið á Íslandi, svokallað tilbúið votlendi. Í tilbúnu votlendi myndast fljótlega vistkerfi sem samanstendur af plöntum, örverum og smádýrum. Plöntutegundir eru tjarnarstör, mýrastör, gulstör, hófsóley, flóðapuntur og Phragmites communis. Verkið er unnið í samvinnu við verkfræðistofuna Hönnun, sem sá um alla hönnun kerfisins, Iðntæknistofnun og Líffræðistofnun Háskólans með styrk úr umhverfissjóði Rannsóknarráðs Íslands. Við Sesseljuhús er skólpskilja hin fyrsta sem sett er upp hér á landi. Skólpskiljan hefur það hlutverk að aðskilja fast skólp frá fljótandi og breyta föstu skólpi með náttúrulegu niðurbroti í gróðurmold.

Flokkun sorps og endurvinnsla

Sorp er flokkað. Lífrænn matarúrgangur er unninn í gróðurmold í jarðgerðarvél. Pappír og pappi er endurunninn í listmuni, fatnaður í teppi og kertaafgangar í ný kerti.

Lífrænt vottuð kaffibrennsla

Á Sólheimum er kröftug kaffibrennsla sem mikill metnaður er lagður í.  Fluttar eru inn óristaðar lífrænar kaffibaunir sem eru ristaðar eftir ákveðnum aðferðum.

Lífrænt vottuð garðyrkja

Á Sólheimum er upphaf lífrænnar ræktunar á Íslandi og er hér starfandi elsta lífræna garðyrkjustöðin á Norðurlöndum.

Lífrætn vottuð jurtavinnsla

Í jurtstofu Sólheima eru unnar sápur og snyrtivörur úr íslenskum jurtum.

Lífrænt vottuð skógræktarstöð

Skógræktarstöðin Ölur er eina lífrænt vottaða skógræktarstöðin á Íslandi. Stöðin framleiðir nú árlega á fjórða hundrað þúsund plöntur.

Lífrænt vottuð eggjaframleiðsla

Á Sólheimum er lífrænt vottað eggjabú. Búið fullnægir allri eggjanotkun að Sólheimum, en umframframleiðsla er seld í versluninni Völu.

Lífrænt vottuð matvælaframleiðsla

Matvælavinnslan Nærandi er lífrænt vottuð. Þar er framleitt brauð og kökur auk sultu, chutneys, súpa o.fl.

Suðurlandsskógar

Sólheimar eru þátttakandi í Suðurlandsskógum og rækta nú skóg á 184 hektara lands. Árlega eru gróðursettar um 17.500 trjáplöntur í skógræktarsvæði Sólheima, auk talsverðrar gróðursetningar í þéttbýlinu að Sólheimum. Í heildina er áætlað að gróðursetja yfir 450 þúsund skógarplöntur af ýmsum tegundum í skógræktarsvæði Sólheima.

Umhverfisvæn ferðaþjónusta og lífrænn veitingastaður

Gistiheimili Sólheima vinnur samkvæmt reglum um umhverfisvæna ferðaþjónustu og kaffihúsið Græna kannan býður eingöngu upp á lífræna fæðu.

Bókasafn um umhverfismál

Í Sesseljuhúsi er vísir að bókasafni um umhverfismál með um 500 bókatitlum.

Sorpmál á Sólheimum

Á hverjum degi fellur til ýmislegt á heimilum sem endar í ruslatunninni. Þróunin á samfélagi okkar síðustu áratugi hefur leitt til sífellt meira sorpmagns og meiri fjármunum er varið í sorphirðu og sorpurðun. Þó er ýmislegt í ruslafötunni sem hægt er að endunýta og því má segja að í sorpi felist ákveðið auðlindagildi. Á hverju ári skilar hver Íslendingur af sér að meðaltali um 345 kg af heimilissorpi sem skiptist eins og myndin hér að neðan sýnir. Með því að flokka og endurvinna sorp minnkar það sorpmagn sem þarf að urða og felst í því bæði beinn sparnaður og minna álag á náttúruna.

Hér að neðan er fjallað um sorpflokkun og endurnýtingu sorps á Sólheimum. Með hliðsjón af myndinni og þeim flokkunarmöguleikum sem standa til boða á Sólheimum væri hægt að endurnýta um 60% af heimilissorpi byggðahverfisins. Markmið Sólheima er að leita stöðugt nýrra úrræða til að auka endurnýtingu og endurvinnslu og taka þannig samfélagslega ábyrgð, hlífa náttúrunni og spara peninga í leiðinni.

Matur verður molta

Á Sólheimum er matarafgöngum frá heimilum og mötuneyti safnað og þeim breytt í næringarríkan áburð sem kallast molta. Myndin hér að neðan sýnir þá hringrás næringarefna sem fæst með jarðgerðinni. Á hverju heimili er matarleifum safnað í sérstaka körfu sem í er poki úr sterkju. Þegar pokinn er fullur er honum lokað og hann settur í svokallað Bíóhús, sem er hirsla fyrir utan hvert hús.
Reglulega er farið um byggðahverfið og pokunum safnað úr Bíóhúsunum og þeir settir í jarðgerðarvélina frú Jarðgerði. Þar brotnar bæði pokinn og innihald hans niður og breytist í moltu sem er síðan nýtt hjá bæði skógræktarstöðinni Öl og garðyrkjustöðinni Sunnu.

Kostir jarðgerðar

Lífræn efni og næringarsölt glatast ekki heldur nýtast sem náttúrulegur áburður. Mengun vegna flutnings, brennslu eða urðunar heimilisúrgangs dregst saman sem nemur hlutfalli lífræns úrgangs frá heimilum. Minni þörf verður fyrir sorpmóttöku og sorpflutninga og kostnaður vegna sorpeyðingar minnkar. Allir fá tækifæri til að vinna að umhverfismálum og bera persónulega ábyrgð á þeim. Eykur skilning og þekkingu fólks, ekki síst hjá börnum, á náttúrulegri hringrás lífrænna efna. (heimild: Sorpstöð Suðurlands)

Kostir jarðgerðar

Endurvinnsla og endurnýting

Flokkun og endurvinnsla sorps krefst skipulags, bæði á heimilum og á flokkunarstöðum. Þó vilji sé til staðar að flokka allt sorp þá þurfa flokkunarmöguleikarnir að vera í samræmi við þá þjónustu sem sveitarfélag staðarins býður upp á. Til að lágmarka þann kostnað sem hlýst af sorpflutningi leitast Sólheimar við að endurnýta og endurvinna eins mikið sorp og mögulegt er staðbundið, það er á Sólheimum.
Á flokkunarstöð Sólheima er bjóðast eftirfarandi flokkunarmöguleikar: pappír, fernur, gler, málmar, plast, flöskur/umbúðir, lífrænt sorp, almennt sorp og kertaafgangar. Einnig er á Sólheimum fatagámur frá Rauða krossinum þar sem hægt er að gefa föt. 

Endurvinnsla og endurnýting

Lágmörkun sorps

Innan umhverfisfræðinnar er stundum sagt “það er ekkert burt” (á ensku “there is no away”). Með því er átt við að þó við losum okkur við sorp og því er ekið í burtu frá okkur þá lendir það alltaf einhvers staðar á okkar sameiginlegu Jörð og veldur þar mengun. Til að lágmarka þessa mengun liggur beinast við að lágmarka sorpið. En hvernig er það hægt? Jú, með ábyrgum framleiðsluháttum, umhverfismiðuðum neysluvenjum, flokkun á sorpi og endurvinnslu. Hlutverk neytandans er að segja “nei takk” við óþarfa umbúðum sem enda hvort eð er í ruslafötunni og flytja þarf langa vegalengd til endurvinnslu, oft til annarra landa. Því er mikilvægt að fólk velji umbúðir vandlega og beri ekki heim með sér óþarfa. 

Vistvernd í verki

Í janúar 2008 hófst á Sólheimum verkefnið Vistvernd í verki en það er alþjóðlegt umhverfisverkefni sem Landvernd stýrir hér á landi. Markmið verkefnisins er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl skref fyrir skref á þeim hraða sem hver velur sér. Um 700 heimili hafa nú þegar tekið þátt í verkefninu á Íslandi. Sveitarfélögin sem stóðu sig best í ársbyrjun 2008 voru Bláskógabyggð þar sem 12% íbúa höfðu tekið þátt og Hveragerði þar sem 9% íbúa höfðu tekið þátt.

Eins og fram kemur á heimasíðu Landverndar þá byggist Vistvernd í verki á hópstarfi þar sem fulltrúar 5 til 8 heimila koma saman. Hverjum hópi er fylgt eftir af leiðbeinanda og allir þátttakendur fá handbók og vinnubók þar sem finna má góð ráð og skrá árangur starfsins. Leiðbeinandi stýrir fyrsta og síðasta fundi en þess á milli starfar hópurinn sjálfstætt en með stuðningi leiðbeinanda. Í bókinni eru tekin fyrir fimm viðfangsefni; sorp, orka, samgöngur, innkaup og vatn. Fundirnir eru notaðir til að fara yfir ýmis atriði í rekstri heimilisins og til að finna leiðir til úrbóta. Hver fundur er helgaður einu viðfangsefni og tekur að hámarki tvær klukkustundir.

Viltu vita meira?

Fjölmargar heimasíður íslenskra fyrirtækja og stofnana innihalda fróðleik um sorpmál og almennar upplýsingar um umhverfismál.

Umhverfisstofnun www.ust.is

Sorpstöð Suðurlands www.sorpstodsudurlands.is

Hitaveita Suðurnesja www.hsveitur.is

Orkustofnun www.orkustofnun.is

Landsvirkjun www.landsvirkjun.is

Orkuveita Reykjavíkur www.or.is

UMÍS ehf. Environice www.environice.is

Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!