Menu
Menu

Sjálfbærar byggingar

Sjálfbærar byggingar

Ýmsar nafngiftir hafa verið notaðar um hús þar sem áhersla er lögð á að byggja í sátt við umhverfið. Slík hús hafa til dæmis verið nefnd vistvænar, orkunýtnar eða grænar byggingar. Í upphafi var megináhersla lögð á orkusparnað en í seinni tíð hefur góð yfirsýn yfir sampil byggingar, umhverfis og vistfræði þess hlotið aukið vægi. Því þykir réttara að tala um sjálfbærar byggingar.

Til að kallast sjálfbær bygging þarf hús að uppfylla ýmsar kröfur, bæði hvað varðar bygginguna sjálfa og hvað fer fram í henni. Kröfurnar eru tíundaðar hér að neðan en ítarlega var farið í efnið á sýningunni Að byggja og búa í sátt við umhverfið. Hugmyndafræðin er sótt til sænska arkitektsins Varis Bokalders en hann gaf út bókina Byggekologi árið 2004 sem inniheldur hafsjó af fróðleik um sjálfbærar byggingar. Bókin er til á bókasafni Sesseljuhúss.

Umhverfisvæn hönnun

Áður en hafist er handa við að byggja nýtt hús þarf að velja staðinn þar sem það skal rísa. Við uppbyggingu sjálfbærra hús og byggðahverfi er reynt að aðlaga mannvirki að umhverfinu en ekki öfugt. Mikilvægt er að hafa góða heildarsýn við skipulagsgerð og taka BÆÐI mið af starfseminni sem þar á að vera og náttúrunni í kring. Til að auka nýtingu á landsvæðinu sem skal nota þarf að spyrja eftirfarandi spurninga ÁÐUR en byrjað er að skipuleggja hvar og hvernig skal byggja: Hvaða auðlindir eru til staðar og hvaða not eru af þeim?

Sem dæmi má nefna að val á byggingarstað getur haft mikil áhrif á orkunotkun húsa. Skjól frá trjám getur komið í veg fyrir að hitahjúpur húss, sem myndast við upphitun, blási burtu. Þannig sparast orka sem færi í endurmyndun hjúpsins. Best er að hafa lauftré á suðurhlið því þegar þau missa lauf á haustin nær sólin að skína inn og verma húsið. Á norðurhlið er hinsvegar betra að hafa sígræn tré sem mynda jafnt og stöðugt skjól allan ársins hring.
Hefð er fyrir því að hanna hús með tilliti til loftslags. Til dæmis, þá byggði fólk á heitum eyðimerkursvæðum sér þung hús, oft að hluta til neðanjarðar, þannig að hitastigsmunur heits dags og kaldrar nætur jafnaðist út. Í mjög köldu loftslagi eins og á Grænlandi byggðu Inúítar lítil og veleinangruð snjóhús (Igloo) með litlum yfirborðsfleti til að lágmarka kælingu.
(Heimild: Bokalders, V: Byggekologi, 2004).

Umhverfisvæn hönnun

Við hönnun umhverfisvænna bygginga þurfa hönnuðir í upphafi verks að gera sér grein fyrir því hvaða umhverfisþætti er mikilvægast að vernda og hvernig lágmarka megi neikvæð áhrif byggingarinnar á umhverfið. Oftar en ekki skiptir mestu máli að lágmarka umhverfisspjöll á nánasta umhverfi og það fer eftir eðli hverrar byggingar um sig hvaða neikvæðu umhverfisáhrif er einfalt að lágmarka. Forgangsröðun ætti að taka tillit til þess hvaða þætti er hægt að framkvæma án mikils kostnaðar og jafnframt með góðum árangri því ekki er hagkvæmt að sólunda peningum í útfærslu sem skilar litlum árangri.
Að sjálfsögðu þarf einnig að taka tillit til þess hvaða hráefni og möguleikar bjóðast og þess sem verkkaupi óskar. Til æskilegra kosta byggingarefna teljast þeir kostir að efnið sé sótt úr endurnýjanlegri auðlind, lítilli orku hafi verið veitt í vinnslu þess, mengun í framleiðslu sé lítil, ekki sé um að ræða mikið frákast og að efnið sé skaðlaust heilsu manna.

Val á byggingarefni

Flest öll byggingarefni geta talist bæði góð og slæm eftir því hvaða viðmið eru notuð. Þegar velja á byggingarefni út frá umhverfissjónarmiði þarf að hafa tvennt í huga:

Hvaða áhrif hefur það á heilsufar og vistkerfið?

Hver eru umhverfisáhrif af framleiðslunni?

Hefðbundin byggingarefni eru í fæstum tilfellum umhverfisvæn því hráefnin eru sótt úr jörðu eða höggvin úr skógum, framleiðsla þeirra getur valdið loftmengun og oft er þörf á mikilli orku í framleiðsluferlinu. Að auki gefa sum byggingarefni frá sér mengandi efni og önnur valda spjöllum þegar líftími þeirra er liðinn. Þegar velja á byggingarefni í sjálfbæra byggingu er æskilegt að efnið sé sótt úr endurnýjanlegri auðlind, lítilli orku hafi verið veitt í vinnslu þess, mengun í framleiðslu sé lítil, ekki sé um að ræða mikið frákast og að efnið sé skaðlaust heilsu manna.

Það fyrsta sem verður að athuga þegar byggingarefni er til skoðunar er hvort það uppfylli kröfurnar sem gerðar eru til þess. Það er ekkert vit í því að velja efni sem er umhverfisvænt ef það virkar ekki sem skyldi eða veldur hættu sökum slakra eiginleika eða styrks. Örðugt getur reynst að skera úr um hvort efni sé vistvænt og hvaða efni sé vistvænast þegar um fleiri en einn kost er að ræða. Oft eru upplýsingar um efnin frá framleiðendum þeirra og gætir þar ef til vill hlutdrægni eða þá að efnið hefur ekki verið notað áður.

Eftirfarandi spurningalisti einfaldar ákvarðanatöku í efnisvali vegna hönnunar umhverfisvænna bygginga þótt spurningarnar byggi aðallega á heilbrigðri skynsemi. Því fleiri jákvæð svör, því umhverfisvænna er efnið sem um ræðir.

Er efnið úr endurnýjanlegri auðlind?

Er efnið nýtt í samræmi við endurnýjun auðlindarinnar?

Er efnið innlent eða framleitt innanlands?

Er efnið af góðum gæðum og er ending þess góð?

Er efnið hættulaust, þ.e. ekki heisluspillandi?

Er framleiðsla á efninu umhverfisvæn?

Er hægt að losna við efnið, við lok líftíma þess, án þess að valda umhverfisspjöllum?

Varðveisla auðlinda

Í sjálfbærri byggingu er takmarkið að lágmarka notkun á orku og auðlindum ÁN ÞESS að skerða lífsgæðin. Sýnt hefur verið fram á að með aukinni orkunýtingu er hægt að minnka orkunotkun í heiminum um helming.

Í öllum húsum umbreytist rafmagn í hita, hreint vatn verður skólp og vörur mynda sorp. Orku- og auðlindanotkun heimila fer fyrst og fremst eftir lífsmynstri og venjum þeirra sem búa þar og starfa. Notkunarvenjur eru mjög svipaðar fyrir rafmagn, hita og vatn – fólk annaðhvort sparar eða spreðar! Með dálítilli umhugsun og endurskoðun á notkunarvenjum má spara orku og auðlindir og peninga í leiðinni.

En það kemur meira til en bruðl með orku og auðlindir. Til að stuðla að sjálfbæru samfélagi þarf að bæta orkunýtingu húsa og þar með minnka orkuþörf þeirra. Hús tapa orku í gegnum skel sína, þ.e. þak, veggi, gólf, glugga, dyr og með lofti og affallsvatni. Gluggarnir eru verst einangrandi og tapast þar mikil orka. Hefðbundin upphitunarkerfi eru ekki eina uppspretta varma til húshitunar. Aðrar uppsprettur eru til staðar eins og líkamshiti, sólarvarmi í gegnum glugga, umframhiti frá raftækjum og heitavatnsnotkun. Arkitektinn getur haft mikil áhrif á orkunotkunina með vali á einangrun, lögun á húsinu og hve mikið hann nýtir þann ókeypis varma sem kemur frá sólinni (t.d með gluggum mót suðri).

Notkun raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og aukin raforkunýtni eru hornsteinar að sjálfbærri þróun. Lágmarka skal orkuþörf húsa og velja orkunýtin raftæki. Vert er að benda á að raftæki í biðstöðu nota rafmagn stöðugt. Í raun nota sum þessara tækja meira rafmagn á meðan þau eru ekki í notkun heldur en þegar verið er að nota þau, og skapa auk þess eldhættu. Til að stuðla að orkuhagkvæmri lýsingu þarf vel skipulagt kerfi rafbúnaðar, ljósa og leiðslna. Síðastliðin ár hefur átt sér stað þróun á orkusparandi raflýsingu og ljósgjöfum. Við skipulagningu á lýsingu þarf að íhuga allan ferilinn, allt frá því hve mörg vött eru sett inn í herbergi til ljósmagns og ljósgæða.
(Heimild: Bokalders, V: Byggekologi, 2004).

Vatn

Þótt við Íslendingar séum svo lánsamir að eiga nóg af vatni þá er óþarfi að bruðla með það. Betra er að venja sig á að nýta það vel, enda er orkufrekt að dæla vatni til okkar og frá okkur aftur. Með vatnssparandi tækni í sturtuhausum, krönum, salernum, þvotta- og uppþvottavélum þá er mögulegt að minnka vatnsnotkun heimila um helming án mikillar fyrirhafnar og án þess að minnka lífsgæði og hreinlæti.

Sorp

Í samfélagi nútímans verður til mikið af sorpi því gallar eru í framleiðslu- og neysluvenjum okkar. Í raun er ekki til neitt sem heitir sorp. Frekar má hugsa það sem efni á röngum stað á röngum tíma. Áætlað er að árlega skili hver Íslendingur af sér 345 kg af heimilissorpi. Mikill kostnaður fylgir söfnun, úrvinnslu og förgun og því ákjósanlegt að minnka sorpmagnið. Það er hægt með ábyrgri framleiðslu, umhverfismiðuðum neysluvenjum, flokkun á sorpi, moltugerð, endurnotkun, endurvinnslu og orkuúrvinnslu. Vörur og umbúðir þarf að flytja langa vegalengd til endurvinnslu, oft til annarra landa. Því er mikilvægt að fólk velji umbúðir vandlega og beri ekki heim með sér óþarfa. Samkvæmt útreikningum sjálfs iðnaðarins þá eru umbúðir matvæla um 10% af heildarverði þess.

Hringrás náttúrunnar

Í náttúrunni er stöðug hringrás efna og orku. Því verður hvorki til sorp né mengun og ekki er gengið á orkuauðlindir jarðar. Í sjálfbærum byggingum er leitast við að herma eftir þessu hringrásarferli eftir bestu getu og notaðir endurnýjanlegir orkugjafar, bæði til upphitunar og lýsingar.

Í öllum byggingum verður til sorp og skólp sem bæði innihalda lífræn efni. Þessum efnum er hægt að skila til baka til náttúrunnar og loka þannig náttúrlegri hringrás næringarefna. Það er hægt með moltugerð og fráveitukerfi sem endurvinnur næringarefni. Fráveita er leiðslukerfi fyrir fráveituvatn þ.e. skólp, ofanvatn og vatn frá upphitunarkerfum húsa. Til að stuðla að sjálfbærri þróun þarf að hreinsa fráveituvatn staðbundið og sjá til þess að næringarefnum sé skilað aftur til náttúrunnar. Náttúran býr yfir góðum hæfileika til að hreinsa skólpvatn og hafa verið þróuð tilbúin náttúrukerfi til hreinsunar á skólpi eins og tjarnir og votlendi.
(Heimild: Bokalders, V: Byggekologi, 2004)

Heilsa

Heilsa

Notkun ýmissa efnasambanda í byggingariðnaði hefur aukist gífurlega undanfarna áratugi og hefur komið í ljós að mörg þeirra eru skaðleg bæði náttúrunni og heilsu manna og dýra. Því mælir margt með því að huga vel að umhverfismálum þegar byggja á nýtt hús.

Markmiðið með sjálfbærum byggingum er að byggja hús sem fólki líður vel í án þess að skaða húsbyggjandann og náttúruna. Í hinum vestræna heimi eyðum við að jafnaði um 90% af tíma okkar innandyra. Því er eðlilegt að við verðum fyrir áhrifum af þeim húsum sem við búum og störfum í, rétt eins og okkur þykur fatnaður misjafnlega þægilegur. Í þessu samhengi hefur fatnaði verið líkt við annað húðlag mannsins og húsi við það þriðja. Því þarf að huga vel að hönnun, efnisvali og þeim búnaði sem notaður er í húsið því allt þetta getur haft áhif á líðan og heilsufar þeirra sem dvelja í húsinu.

Sum hús gefa frá sér mikið af skaðlegum efnum sem menga loft innandyra. Getur andrúmsloft innandyra innihaldið meira af skaðlegum efnum en útiloft, jafnvel í borgum þar sem útblástur skaðlegra lofttegunda er mikill. Það sem veldur mengun innandyra er m.a. málning, viðarvörn, lím og hreinsiefni en einnig eru hús orðin þéttari sem hefur í för með sér að efnasamböndin lokast inni. Þetta getur valdið svokallaðri húsasótt (e. sick building syndrome) hjá þeim sem í húsunum búa og starfa en einkenni hennar eru m.a. höfuðverkur, pirringur í augum og nefi, svimi og ógleði. Þótt einkennin séu yfirleitt tímabundin getur langvarandi viðvera í slíkum veikum húsum leitt til alvarlegri kvilla og sjúkdóma.
(Heimild: Bokalders, V: Byggekologi, 2004)

Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!