Menu
Menu
parallax

Starfa á Sólheimum

Umsókn um starf

Hefur þú tíma aflögu og vilt leggja gott til?  Sólheimar hafa í rúm 90 ár tekið vel á móti erlendum sjálfboðaliðum sem lagt hafa mikið af mörkum við uppbyggingu Sólheima og tekist á við fjölbreytt verkefni. Sólheimar hafa þörf fyrir gott fólk sem leggja vill gott til. Ef þú hefur áhuga og tækifæri á að leggja okkur lið, væri ánægjulegt að heyra frá þér.

Hafir þú áhuga á að starfa með okkur á Sólheimum, getur þú sent okkur tölvupóst á solheimar(hjá)solheimar.is. Umsóknir eru geymdar í sex mánuði. Ef starf er auglýst er nauðsynlegt að sækja um það sérstaklega.
Upplýsingar um laus störf má finna hér

Úrræði fyrir atvinnulausa

Sólheimar hafa í á annan áratug unnið með Vinnumálastofnun að endurhæfingu og starfsþjálfun atvinnulausra og langtíma atvinnulausra. Umgjörð Sólheima hentar einstaklega vel til að styðja þá einstaklinga sem hafa átt erfitt með að hasla sér völl á almennum vinnumarkaði og veita þeim nauðsynlega verkþjálfun og sjálfsmat svo þeir geti orðið betur hæfir á almennum vinnumarkaði.

Sólheimar vinna nú í samstarfi við Vinnumálastofnun við að veita þeim einstaklingum sem misst hafa vinnu tækifæri til atvinnuþátttöku. Hægt er að hafa samband bæði við Vinnumálastofunun á Selfossi eða Sólheima á netfangið solheimar(hjá)solheimar.is eða í síma 422-6000 til að fá upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði hverju sinni.

Starfsnám

Námsframboð og fræðslustarf hefur aukist jöfnum höndum á Sólheimum undanfarin misseri og árið 2010 var fyrst boðið upp á starfsnám á Sólheimum. Starfsnámið býður nemendum upp á að öðlast starfsreynslu og geta unnið að eigin áherslum á sínu sviði um leið og þeir öðlast innsýn í hvernig unnið er að umhverfislegri og samfélagslegri sjálfbærni undir handleiðslu starfsfólks á Sólheimum.
Starfsnám á Sólheimum er opið fólki sem er í námi og öðrum (18 ára og eldri) en þeir sem sýna frumkvæði og einlægan áhuga, og hafa menntun á sviði samfélagsmála, listgreina, umhverfisfræða og/eða áhuga á öðrum rannsóknum sem uppfylla þarfir Sólheima. 

Tilgangur starfsnáms á Sólheimum

Starfsnám á Sólheimum býður upp á einstakt tækifæri fyrir nemendur til að taka þátt í menntaverkefni sem miðar að aukinni sjálfbærni og sterkara samfélagi í sjálfbæru samfélagi á Suðurlandi. Sólheimar eru heimsþekkt samfélag fyrir fólk með sérþarfir, og mun starfsnámið veita nemendum innsýn í og reynslu af þátttöku í sjálfbæru samfélagi og gefa þeim tækifæri á að einbeita sér að einstaklingsmiðuðum verkefnum og markmiðum í námi sínu.

Markmið starfsnámsins eru:

Að kynna nemendum daglegt líf og störf í sjálfbæru samfélagi sem er eitt hið elsta á heimsvísu og einstakt að uppbyggingu og starfsemi

Að nemendur öðlist skilning á því hvernig unnið er að sjálfbærni með samfélagi

Að nemendur þrói einstaklingsmiðuð lærdómsmarkmið fyrir starfsnámið

Aðstoða nemendur við að velja sér starfsvettvang með því að veita starfsreynslu á þeirra kjörsviði

Að aðstoða nemendur við að skapa tæki til að þróa starfsferil sinn

Mynda tengsl við aðra á þeirra kjörsviði sem geta aðstoðað nemendur við að fá starf við hæfi

Að hjálpa nemendum við að öðlast skilning á samfélagi, sjálfbærni og umhverfismálum

Að auka þekkingu nemenda á íslenskri menningu, tungumálinu og sögu landsins

Að styrkja nemendur sem einstaklinga, sjálfstæði þeirra og persónlulegan vöxt og þroska

Unnið er að þessum markmiðum með handleiðslu nemendanna og uppbyggingu starfsnámsins. Aðalleiðbeinandi starfsnámsins er forstöðumaður Sesseljuhúss umhverfisseturs.

Hægt er að sækja um starfsnám á eftirfarandi stöðum í byggðinni:

Sesseljuhús – umhverfissetur

Verslunin Vala og Græna kannan, kaffihús

Vinnustofur (listasmiðja, vefstofa, leirgerð, jurtastofa, kertagerð og smíðastofa)

Viðhald og byggingar

Skógræktarstöðin Ölur

Gróðrarstöðin Sunna

Frekari upplýsingar varðandi starfsnámið eru veittar í síma 422-6080, en einnig er hægt að senda fyrirspurnir á sesseljuhus(hjá)solheimar.is.

Hægt er að sækja um með því að fylla út formið hér að neðan.

Sjálfboðaliðar

Frá stofnun Sólheima hafa erlendir sjálfboðaliðar skipað mikilvægan sess í starfi Sólheima. Sólheimar taka á móti fjölda erlendra sjálfboðaliða sem dvelja á Sólheimum um lengri eða skemmri tíma. Með því móti skapast fjölmörg tækifæri þar sem sjálfboðaliðar leggja sitt að mörkum til samfélagsins og íbúanna.
Einnig veitir það íbúum Sólheima einstakt tækifæri til að kynnast ólíkum menningarheimum og einstaklingum. Sjáflboðaliðar koma að mörgum ólíkum þáttum með vinnu sinni; á vinnustofum, í fyrirtækjum, við söng og dans, í leikfélagi o.s.frv.

EUF sjálfboðaliðar

Sólheimar hófu nýlega samstarf við Evrópu unga fólksins (EUF) varðandi komu sjálfboðaliðanna og eru Sólheimar nú orðnir móttöku, umsjónar og sendisamtök.
Umsóknina og nánari upplýsingar má nálgast hér

EUF sjálfboðaliðar

Eftirfarandi vinnustaðir í byggðinni taka að sér sjálfboðaliða:

Sesseljuhús – umhverfissetur

Verslunin Vala og Græna kannan, kaffihús

Vinnustofur (listasmiðja, vefstofa, leirgerð, jurtastofa, kertagerð og smíðastofa)

Viðhald og byggingar

Skógræktarstöðin Ölur

Gróðrarstöðin Sunna

Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!