Menu
Menu

Leikfélag Sólheima sýnir afmælissýninguna Árar, álfar og tröll í Þjóðleikhúsinu


  

Fréttatilkynning – þriðjudaginn 11. maí, 2021
Þjóðleikhúsið, leikhús allra landsmanna, mun sýna afmælissýningu Leikfélags Sólheima, Árar, álfar og tröll á Stóra sviðinu. Sýningin fer fram mánudaginn 24. maí nk. kl 18.00 og fer miðasala fram á leikhusid.is og tix.is.

 

Leikritið Árar, álfar og tröll var frumsýnt í Sólheimaleikhúsinu á sumardaginn fyrsta, þann 22. apríl sl. Sýningin sló rækilega í gegn og uppselt varð á allar sýningarnar fimm. Verkið er skrifað af Hannesi Blandon og Guðmundi Lúðvík Þorvaldssyni en Lárus Sigurðsson gerði tónlistina. Verkið er skrifað sérstaklega í tilefni 90 ára afmælis Sólheima og er byggt á sögu Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur, stofnanda Sólheima. Sagan er sett í ævintýralegan búning. Guðmundur Lúðvík leikstýrir verkinu en hann er leikfélaginu að góðu kunnur þar sem þetta er í fimmta sinn sem hann leikstýrir á Sólheimum. Fjöldi íbúa Sólheima kemur að verkinu, bæði í leikhlutverkum og bakvið tjöldin.

 

Hátíðarsýning í tilefni af 90 ára afmæli Sólheima og leikfélags Sólheima

Verkið er ævintýri sem fjallar um baráttukonuna Sesselju sem á sér þann draum að opna barnaheimili þar sem allir geta lifað í sátt og samlyndi. Til þess að láta draum sinn rætast þarf hún að takast á við konungsríki og alls kyns verur, svo sem álfa og tröll. Leikfélag Sólheima var stofnað árið 1931 og á því 90 ára afmæli í ár. Löng hefð er fyrir því að frumsýna á sumardaginn fyrsta og var engin undantekning á því í ár. Leikhópurinn er sérstaklega spenntur fyrir hátíðarsýningu í Þjóðleikhúsinu þann 24. maí næstkomandi á 90 ára afmæli sínu. 

Þjóðleikhúsið fagnar komu hins kraftmikla leikfélags Sólheima, sem hefur unnið mikilvægt starf í gegnum tíðina, og árnar félaginu heilla á stórafmælinu.

Nánar um sýninguna:
https://leikhusid.is/syningar/arar-alfar-og-troll/

 

 

Nánari upplýsingar veita:


Helga Þórunn Pálsdóttir
helga.palsdottir@solheimar.is
S: 855 6010

 

Sváfnir Sigurðarson

svafnir@leikhusid.is
S: 664 0444

Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!