Við eigum afmæli í dag!

Securitas bauð okkur í Grillveislu í dag. 
Við þökkum þeim mikið og vel fyrir frábærar stundir í sól og hita.
Í dag eru Sólheimar SES 89 ára og Sessella Hreindís Sigmundsdóttir stofnandi Sólheima hefði orðið 117 ára.


Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir

Sesselja fæddist í Hafnarfirði 5. júlí 1902. Foreldrar hennar voru Kristín Símonardóttir og Sigmundur Sveinsson og er Sesselja ein sjö systkina.  Sesselja stundaði nám í sex ár í Danmörku, Sviss og Þýskalandi, m.a. í uppeldisfræði, barnahjúkrun og rekstri barnaheimila og var fyrsti Íslendingurinn sem lærði umönnun þroskaheftra. Á námsárunum í Þýskalandi kynntist Sesselja kenningum dr. Rudolf Steiner um  „anthroposophy“ eða mannspeki.

 

Sesselja stofnaði Sólheima 28 ára gömul, á afmælisdegi sínum, þann 5. júlí 1930. Þann dag komu fyrstu fimm börnin og nokkru síðar bættust önnur fimm við. Ekkert íbúðarhæft hús var á staðnum og því búið í tjöldum þar til Sólheimahúsið var fokhelt um veturinn. Sólheimar voru stofnaðir sem barnaheimili, einkum fyrir börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður svo sem foreldramissi eða veikindi foreldra. Haustið 1931 kom fyrsta þroskahefta barnið að Sólheimum en þá voru engin úrræði til á Íslandi fyrir þroskahefta og þess voru dæmi að þroskaheft fólk væri geymt í útihúsum.

Sesselja lagði áherslu á að Sólheimar væru heimili en ekki stofnun og að fatlaðir sem ófatlaðir deildu kjörum í daglegu lífi og starfi. Á Sólheimum markaðist upphaf þeirrar stefnu sem nefnd er samskipan fatlaðra og ófatlaðra eða blöndun en sú stefna var ekki þekkt erlendis fyrr en um og eftir 1970.

 

Starf Sólheima mætti oft tortryggni og andúð og risu harðar deilur milli Sesselju og yfirvalda um stefnuna í rekstri Sólheima. Næstu tvo áratugina skarst oft í odda og stundum mjög alvarlega. Yfirvöld vildu m.a. ekki að á Sólheimum væru vistuð samtímis fötluð og ófötluð börn. Árið 1946 setti ríkisstjórnin bráðabirgðalög, aðeins tíu dögum fyrir samkomudag Alþingis, um að taka Sólheima leigunámi. Tilgangur laganna var að ríkið yfirtæki Sólheima og koma skyldi Sesselju í burtu af staðnum. Bráðabirgðalögin hlutu ekki staðfestingu Alþingis, þar sem Alþingi var leyst upp vegna ágreinings um Keflavíkurflugvöll.

 

Eftir að Sesselja flutti til Íslands 1930 stóð hún í bréfaskriftum við fjölda fólks í Danmörku, Þýskalandi, Hollandi, Englandi og Sviss, m.a. um lífeflda ræktun og mannspeki og ferðaðist hún reglulega til þessara landa. Meðal þeirra sem hún átti í samskiptum voru frumkvöðlar í málefnum fatlaðra í Evrópu eins og dr. Karl König, stofnandi Camphill-hreyfingarinnar í Bretlandi. Sesselja var frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og var í raun fyrsti íslenski umhverfissinninn.

 

Sesselja giftist Rudolf Richard Walter Noah 17. mars 1949. Noah var þýskur tónlistarmaður og kennari, sem kom til Íslands 1935. Hann dvaldi á Sólheimum og hjálpaði Sesselju við uppeldi barnanna. Hann var handtekinn af breska hernum og fluttur í fangabúðir til Englands. Noah fékk ekki leyfi til að koma til Íslands fyrr en níu árum síðar. Hann fór aftur til Þýskalands án þess að Sesselja og hann skildu formlega. Noah lést í Þýskalandi 1967. Sesselja ættleiddi tvö börn þau Hólmfríði og Elvar og ól upp 14 fósturbörn. Sesselja lést á Landakotsspítala í Reykjavík 8. nóvember 1974, 72 ára gömul.

 

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is