Skipulagssrká Sólheima ses.

Skipulagsskrá Sólheima
Samþykkt af fulltrúaráði Sólheima árið 2002 með breytingum samþykktum 2004 og 2015

1.gr.
Stofnunin er sjálfseignarstofnun og heitir Sólheimar ses.
Heimili og varnarþing er að Sólheimum, Grímsnes-og Grafningshreppi, Árnessýslu.

2.gr.
Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir og Barnaheimilisnefnd þjóðkirkjunnar eru stofnendur Sólheima. Stofnfé er kr. 3.000.000- og skal það að raungildi aldrei vera minna en nemur þeirri fjárhæð. Stofnuninni tilheyra eignir og skuldbindingar Sólheima sjálfseignarstofnunar eins og þær eru við samþykkt skipulagsskrár þessarar. Tekjuafgangur, sem verður af starfsemi stofnunarinnar, rennur til hennar sjálfrar og skal varið til þeirra verkefna, er greinir í 3. gr. samþykkta þessara. Ennfremur aðrar tekjur eða eignir, er henni kunna að áskotnast frá einstaklingum, félögum eða opinberum aðilum sem styrkur, gjöf eða arfur. Verði tap af starfsemi stofnunarinnar verður það greitt úr sjóðum hennar eða fært á næsta reikningsár. Engir njóta hjá stofnuninni sérstakra réttinda.

3.gr.
Markmið Sólheima ses. er að skapa sjálfbært samfélag (Eco village), byggt fólki sem leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Leggja skal áherslu á eigin matvælaframleiðslu, byggingar í sátt við náttúruna, eigin orkuöflun, lífræna ræktun, vinnslu afurða úr náttúrulegum efnum og endurvinnslu. Atvinnustarfsemi skal taka mið af efnahagslegum og félagslegum áhrifum á samfélagið og vera í sátt við náttúruna. Sólheimum ses. er heimilt að starfrækja félagsþjónustu við fólk með sérþarfir þar sem einstaklingum er veitt þjálfun og leiðsögn með það að markmiði að gera þeim kleift að lifa eðlilegu lífi og hasla sér völl í samfélaginu þar sem þeim vegnar best. Sólheimum ses. er heimilt að standa að rekstri fyrirtækja ýmist með beinum hætti eða aðild að sjálfstæðum rekstrafélögum. Sólheimum ses. er heimilt að koma upp og reka félagslegar íbúðir, svo og leigja lóðir fyrir íbúða- og atvinnuhúsnæði. Sólheimum ses. er einnig heimilt að standa að þróunaraðstoð við einstaklinga með sérþarfir erlendis á eigin vegum eða í samstarfi við aðra.

4.gr.
Framkvæmdastjórn skal sjá um að Sólheimar ses. sé rekin í samræmi við gildandi lög og að þær hefðir sem skapast hafa í áratuga starfi stofnunarinnar séu í heiðri hafðar.

5.gr
Sólheimum ses. stjórnar fulltrúaráð skipað 17 fulltrúum. Kosning fulltrúa í ráðið fer fram á aðalfundi fulltrúaráðsins ár hvert og ræðst fjöldi þeirra, sem kosinn er hverju sinni, af því hversu kjörtímabil margra fulltrúaráðsmanna er á enda það árið. Falli fulltrúaráðsmaður frá eða hverfi hann úr ráðinu af öðrum ástæðum áður en kjörtímabili hans lýkur kýs fulltrúaráðið annan í hans stað á næsta aðalfundi ráðsins. Framkvæmdastjórn eða fulltrúaráðsmaður getur gert tillögu um nýjan fulltrúa í ráðið og skal tillaga um fulltrúa berast framkvæmdastjórn bréflega a.m.k. viku fyrir boðaðan aðalfund ráðsins. Kjörtímabil fulltrúaráðsmanns er fjögur ár, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða. Fulltrúaráðsmann má endurkjósa. Fulltrúaráð setur sér starfsreglur

6.gr
Á aðalfundi fulltrúaráðsins skal ráðið kjósa fimm menn úr hópi fulltrúaráðsmanna í framkvæmdastjórn til eins árs í senn og einn til vara á sama tíma.
Stjórnarformann skal kjósa sérstakri kosningu.
Stjórnarmenn skipta að öðru leyti með sér verkum.
Endurkjósa má stjórnarmann.
Meirihluti stjórnar skuldbindur stofnunina.
Framkvæmdastjórn er heimilt að skipa þrjá fulltrúaráðsmenn í uppstillingarnefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögu til aðalfundar fulltrúaráðs um um kjör fimm manna úr hópi fulltrúaráðsmanna í framkvæmdastjórn og einn til vara og um kjör nýs fulltrúaráðsmanns í stað þess sem gengur úr ráðinu. Tillögur uppstillingarnefndar skal kynna fulltrúaráðsmönnum a.m.k. sjö dögum fyrir aðalfund með bréfi eða tölvupósti.

7.gr.
Aðalfund fulltrúaráðsins skal halda fyrir lok maí ár hvert. Aukafundi ráðsins skal halda eftir ákvörðun framkvæmdastjórnar eða samkvæmt skriflegri ósk fimm fulltrúaráðsmanna eða fleiri, þar sem fundarefni er tilgreint. Aukafund skal þá boða innan 2ja vikna. Framkvæmdastjórn boðar til funda fulltrúaráðsins með bréfi eða símskeyti eða á annan tryggan hátt.
Aðalfund skal boða með minnst fjórtán daga fyrirvara en aukafund með minnst sjö daga fyrirvara.
Formaður framkvæmdastjórnar, eða varaformaður í fjarveru hans, setur aðalfund og fundurinn kýs síðan fundarstjóra og fundarritara. Aukafundum fulltrúaráðs stýrir formaður framkvæmdastjórnar, eða varaformaður í fjarveru hans, nema fundurinn kjósi fundarstjóra sérstaklega.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirgreind mál:
Ársskýrsla framkvæmdastjórnar.
Ársreikningar liðins starfsárs lagðir fram til staðfestingar.
Fjárhagsáætlun lögð fram til staðfestingar.
Kosning fulltrúa í fulltrúaráð í stað þeirra sem úr ráðinu eiga að ganga.
Kosning framkvæmdastjórnar skv. 6. gr.
Ráðning löggilts endurskoðanda skv. 9. gr. staðfest.
Kosning tveggja skoðunarmanna skv. 9. gr.
Önnur mál.

8.gr.
Framkvæmdastjórn stýrir málefnum stofnunarinnar og gætir hagsmuna hennar í hvívetna.
Framkvæmdastjórn skal leggja fyrir fulltrúaráðið allar þær meiriháttar ákvarðanir um rekstur stofnunarinnar, sem hún telur nauðsynlegt vegna mikilvægi málsins.
Framkvæmdastjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur stofnunarinnar og setur honum erindisbréf.
Eigi má veðsetja jörð og hús stofnunarinnar fyrir nýjum lánum nema með samþykki framkvæmdastjórnar.
Eigi má binda eignir stofnunarinnar nokkrum veðböndum, kvöðum eða skuldbindingum, sem óviðkomandi eru tilgangi hennar.

9.gr.
Starfsár og reikningsár Sólheima ses. er almanaksárið.
Framkvæmdastjórn er heimilt að leggja árlega til hliðar sanngjarna fjárhæð til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur stofnunarinnar.
Á aðalfundi fulltrúaráðsins skal staðfest ráðning löggilts endurskoðanda til eins árs, er endurskoða skal reikninga stofnunarinnar.
Ennfremur skal á aðalfundi ráðsins kjósa tvo skoðunarmenn reikninga stofnunarinnar úr hópi fulltrúaráðsmanna til eins árs.

10.gr.
Breytingar á skipulagsskrá þessari og ákvörðunum um að hætta rekstri stofnunarinnar skulu samþykktar af 2/3 hluta fulltrúaráðsmanna.
Verði ákvörðun tekin um að hætta rekstri Sólheima ses. og stofnunin lögð niður skal hrein eign hennar renna til hliðstæðra verkefna og tilgreind eru í 3. gr. eftir nánari ákvörðun fulltrúaráðs.

11.gr.
Þar sem ákvæði samþykkta þessara ná ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

12.gr.
Skipulagsskrá þessi kemur í stað skipulagsskrár fyrir sjálfseignarstofnunina Sólheima frá 25. janúar 1993, sem jafnframt fellur úr gildi.
Skipulagsskrá þessari var breytt 24. apríl 2004 og 25. apríl 2015.
 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is