Umhverfismál

Starf Sólheima byggir á starfi og hugsjónum Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur, stofnanda Sólheima en hún heillaðist ung af kenningum Rudolfs Steiners. Sesselja var frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og er á meðal þeirra fyrstu á Íslandi sem létu sig umhverfismál varða. Einnig starfa Sólheimar eftir markmiðum byggða með skilgreind markmið (Intentional communities) og Alþjóðlegum samtökum sjálfbærra byggða (Global Ecovillage Network).

Markmið Sólheima er að skapa sjálfbært samfélag, byggt fólki sem leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Lögð er áhersla á sjálfbærar byggingar, eigin orkuöflun, lífræna ræktun, vinnslu afurða úr náttúrulegu hráefni og endurvinnslu. Rekstur fyrirtækja að Sólheimum skal taka mið af efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum áhrifum á samfélagið.

Við fengum jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar – við fengum hana að láni frá börnum okkar

Talið er að um 15 þúsund staðir og byggðahverfi í veröldinni hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Sólheimar eru fyrsti staðurinn á Íslandi sem hlýtur erlenda viðurkenningu sem sjálfbært byggðahverfi.

Byggingar í sátt við náttúruna.
Sesseljuhús er byggt sem sýningarhús um sjálfbæra byggingu. Val á byggingarefni í húsið er til fyrirmyndar frá umhverfissjónarmiði. Húsið er fyrsta samtímabyggingin á Íslandi sem er 100 % laus við PVC efni. Húsið er allt klætt að utan með íslenskri viðarklæðningu þ.e. rekavið. Málning innan dyra er lífræn jurtaolía. Veggir eru einangraðir með íslenskri lambsull, en þak með endurunnum pappír úr dagblöðum bókum og símaskrám.

Eigin orkuöflun
Sólheimar hafa eigin hitaveitu fyrir öll íbúðarhús, atvinnuhúsnæði og sundlaug. í Sesseljuhúsi eru sólarrafhlaða og vindmylla sem sjá húsinu fyrir hluta af orkuþörf þess.

Lífrænt fráveitukerfi.
Á Sólheimum er fyrsta náttúrulega hreinsivirkið á Íslandi, svokallað tilbúið votlendi. Í tilbúnu votlendi myndast fljótlega vistkerfi sem samanstendur af plöntum, örverum og smádýrum. Plöntutegundir eru tjarnarstör, mýrastör, gulstör, hófsóley, flóðapuntur og Phragmites communis. Verkið er unnið í samvinnu við verkfræðistofuna Hönnun, sem sá um alla hönnun kerfisins, Iðntæknistofnun og Líffræðistofnun Háskólans með styrk úr umhverfissjóði Rannsóknarráðs Íslands. Við Sesseljuhús er skólpskilja hin fyrsta sem sett er upp hér á landi. Skólpskiljan hefur það hlutverk að aðskilja fast skólp frá fljótandi og breyta föstu skólpi með náttúrulegu niðurbroti í gróðurmold.

Flokkun sorps og endurvinnsla.
Sorp er flokkað. Lífrænn matarúrgangur er unninn í gróðurmold í jarðgerðarvél.
Pappír og pappi er endurunninn í listmuni, fatnaður í teppi og kertaafgangar í ný kerti.

Lífrænt vottuð garðyrkja.
Á Sólheimur er upphaf lífrænnar ræktunar á Íslandi og er hér starfandi elsta lífræna garðyrkjustöðin á Norðurlöndum.

Vinnsla úr íslenskum jurtum.
Í jurtstofu Sólheima eru unnar sápur og snyrtivörur úr íslenskum jurtum.

Lífrænt vottuð skógræktarstöð.
Skógræktarstöðin Ölur er eina lífrænt vottaða skógræktarstöðin á Íslandi. Stöðin framleiðir nú árlega á fjórða hundrað þúsund plöntur.

Lífrænt vottuð eggjaframleiðsla.
Á Sólheimum er lífrænt vottað eggjabú. Búið fullnægir allri eggjanotkun að Sólheimum, en umframframleiðsla er seld í versluninni Völu.

Lífrænt vottuð matvælaframleiðsla

Matvælavinnslan Nærandi er lífrænt vottuð. Þar er framleitt brauð og kökur auk sultu, chutneys, súpa o.fl. 

Suðurlandsskógar.
Sólheimar eru þátttakandi í Suðurlandsskógum og rækta nú skóg á 184 hektara lands. Árlega eru gróðursettar um 17.500. trjáplöntur í skógræktarsvæði Sólheima, auk talsverðrar gróðursetningar í þéttbýlinu að Sólheimum. Í heildina er áætlað að gróðursetja yfir 450 þúsund skógarplöntur af ýmsum tegundum í skógræktarsvæði Sólheima.

Umhverfisvæn ferðaþjónusta og lífrænn veitingastaður.

Gistiheimili Sólheima vinnur samkvæmt reglum um umhverfisvæna ferðaþjónustu og kaffihúsið Græna kannan býður eingöngu upp á lífræna fæðu.

Bókasafn um umhverfismál.
Í Sesseljuhúsi er vísir að bókasafni um umhverfismál með um 500 bókatitlum.

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is