Varðveisla auðlinda

Í sjálfbærri byggingu er takmarkið að lágmarka notkun á orku og auðlindum ÁN ÞESS að skerða lífsgæðin. Sýnt hefur verið fram á að með aukinni orkunýtingu er hægt að minnka orkunotkun í heiminum um helming.

Í öllum húsum umbreytist rafmagn í hita, hreint vatn verður skólp og vörur mynda sorp. Orku- og auðlindanotkun heimila fer fyrst og fremst eftir lífsmynstri og venjum þeirra sem búa þar og starfa. Notkunarvenjur eru mjög svipaðar fyrir rafmagn, hita og vatn – fólk annaðhvort sparar eða spreðar! Með dálítilli umhugsun og endurskoðun á notkunarvenjum má spara orku og auðlindir og peninga í leiðinni.

bbEn það kemur meira til en bruðl með orku og auðlindir. Til að stuðla að sjálfbæru samfélagi þarf að bæta orkunýtingu húsa og þar með minnka orkuþörf þeirra. Hús tapa orku í gegnum skel sína, þ.e. þak, veggi, gólf, glugga, dyr og með lofti og affallsvatni. Gluggarnir eru verst einangrandi og tapast þar mikil orka. Hefðbundin upphitunarkerfi eru ekki eina uppspretta varma til húshitunar. Aðrar uppsprettur eru til staðar eins og líkamshiti, sólarvarmi í gegnum glugga, umframhiti frá raftækjum og heitavatnsnotkun. Arkitektinn getur haft mikil áhrif á orkunotkunina með vali á einangrun, lögun á húsinu og hve mikið hann nýtir þann ókeypis varma sem kemur frá sólinni (t.d með gluggum mót suðri).

Notkun raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og aukin raforkunýtni eru hornsteinar að sjálfbærri þróun. Lágmarka skal orkuþörf húsa og velja orkunýtin raftæki. Vert er að benda á að raftæki í biðstöðu nota rafmagn stöðugt. Í raun nota sum þessara tækja meira rafmagn á meðan þau eru ekki í notkun heldur en þegar verið er að nota þau, og skapa auk þess eldhættu. Til að stuðla að orkuhagkvæmri lýsingu þarf vel skipulagt kerfi rafbúnaðar, ljósa og leiðslna. Síðastliðin ár hefur átt sér stað þróun á orkusparandi raflýsingu og ljósgjöfum. Við skipulagningu á lýsingu þarf að íhuga allan ferilinn, allt frá því hve mörg vött eru sett inn í herbergi til ljósmagns og ljósgæða (Heimild: Bokalders, V: Byggekologi, 2004).

Vatn
Þótt við Íslendingar séum svo lánsamir að eiga nóg af vatni þá er óþarfi að bruðla með það. Betra er að venja sig á að nýta það vel, enda er orkufrekt að dæla vatni til okkar og frá okkur aftur. Með vatnssparandi tækni í sturtuhausum, krönum, salernum, þvotta- og uppþvottavélum þá er mögulegt að minnka vatnsnotkun heimila um helming án mikillar fyrirhafnar og án þess að minnka lífsgæði og hreinlæti.

Sorp
Í samfélagi nútímans verður til mikið af sorpi því gallar eru í framleiðslu- og neysluvenjum okkar. Í raun er ekki til neitt sem heitir sorp. Frekar má hugsa það sem efni á röngum stað á röngum tíma. Áætlað er að árlega skili hver Íslendingur af sér 345 kg af heimilissorpi. Mikill kostnaður fylgir söfnun, úrvinnslu og förgun og því ákjósanlegt að minnka sorpmagnið. Það er hægt með ábyrgri framleiðslu, umhverfismiðuðum neysluvenjum, flokkun á sorpi, moltugerð, endurnotkun, endurvinnslu og orkuúrvinnslu. Vörur og umbúðir þarf að flytja langa vegalengd til endurvinnslu, oft til annarra landa. Því er mikilvægt að fólk velji umbúðir vandlega og beri ekki heim með sér óþarfa. Samkvæmt útreikningum sjálfs iðnaðarins þá eru umbúðir matvæla um 10% af heildarverði þess.

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is