Umhverfisvæn hönnun

Áður en hafist er handa við að byggja nýtt hús þarf að velja staðinn þar sem það skal rísa. Við uppbyggingu sjálfbærra hús og byggðahverfi er reynt að aðlaga mannvirki að umhverfinu en ekki öfugt. Mikilvægt er að hafa góða heildarsýn við skipulagsgerð og taka BÆÐI mið af starfseminni sem þar á að vera og náttúrunni í kring. Til að auka nýtingu á landsvæðinu sem skal nota þarf að spyrja eftirfarandi spurninga ÁÐUR en byrjað er að skipuleggja hvar og hvernig skal byggja: Hvaða auðlindir eru til staðar og hvaða not eru af þeim?

Sem dæmi má nefna að val á byggingarstað getur haft mikil áhrif á orkunotkun húsa.  Skjól frá trjám getur komið í veg fyrir að hitahjúpur húss, sem myndast við upphitun, blási burtu. Þannig sparast orka sem færi í endurmyndun hjúpsins. Best er að hafa lauftré á suðurhlið því þegar þau missa lauf á haustin nær sólin að skína inn og verma húsið. Á norðurhlið er hinsvegar betra að hafa sígræn tré sem mynda jafnt og stöðugt skjól allan ársins hring. Hefð er fyrir því að hanna hús með tilliti til loftslags. Til dæmis, þá byggði fólk á heitum eyðimerkursvæðum sér þung hús, oft að hluta til neðanjarðar, þannig að hitastigsmunur heits dags og kaldrar nætur jafnaðist út. Í mjög köldu loftslagi eins og á Grænlandi byggðu Inúítar lítil og veleinangruð snjóhús (Igloo) með litlum yfirborðsfleti til að lágmarka kælingu (Heimild: Bokalders, V: Byggekologi, 2004).

Við hönnun umhverfisvænna bygginga þurfa hönnuðir í upphafi verks að gera sér grein fyrir því hvaða umhverfisþætti er mikilvægast að vernda og hvernig lágmarka megi neikvæð áhrif byggingarinnar á umhverfið. Oftar en ekki skiptir mestu máli að lágmarka umhverfisspjöll á nánasta umhverfi og það fer eftir eðli hverrar byggingar um sig hvaða neikvæðu umhverfisáhrif er einfalt að lágmarka. Forgangsröðun ætti að taka tillit til þess hvaða þætti er hægt að framkvæma án mikils kostnaðar og jafnframt með góðum árangri því ekki er hagkvæmt að sólunda peningum í útfærslu sem skilar litlum árangri. Að sjálfsögðu þarf einnig að taka tillit til þess hvaða hráefni og möguleikar bjóðast og þess sem verkkaupi óskar. Til æskilegra kosta byggingarefna teljast þeir kostir að efnið sé sótt úr endurnýjanlegri auðlind, lítilli orku hafi verið veitt í vinnslu þess, mengun í framleiðslu sé lítil, ekki sé um að ræða mikið frákast og að efnið sé skaðlaust heilsu manna.

P0007429

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is