Heilsa

Notkun ýmissa efnasambanda í byggingariðnaði hefur aukist gífurlega undanfarna áratugi og hefur komið í ljós að mörg þeirra eru skaðleg bæði náttúrunni og heilsu manna og dýra. Því mælir margt með því að huga vel að umhverfismálum þegar byggja á nýtt hús.

hudir2Markmiðið með sjálfbærum byggingum er að byggja hús sem fólki líður vel í án þess að skaða húsbyggjandann og náttúruna. Í hinum vestræna heimi eyðum við að jafnaði um 90% af tíma okkar innandyra. Því er eðlilegt að við verðum fyrir áhrifum af þeim húsum sem við búum og störfum í, rétt eins og okkur þykur fatnaður misjafnlega þægilegur.  Í þessu samhengi hefur fatnaði verið líkt við annað húðlag mannsins og húsi við það þriðja. Því þarf að huga vel að hönnun, efnisvali og þeim búnaði sem notaður er í húsið því allt þetta getur haft áhif á líðan og heilsufar þeirra sem dvelja í húsinu.

Sum hús gefa frá sér mikið af skaðlegum efnum sem menga loft innandyra. Getur andrúmsloft innandyra innihaldið meira af skaðlegum efnum en útiloft, jafnvel í borgum þar sem útblástur skaðlegra lofttegunda er mikill. Það sem veldur mengun innandyra er m.a. málning, viðarvörn, lím og hreinsiefni en einnig eru hús orðin þéttari sem hefur í för með sér að efnasamböndin lokast inni. Þetta getur valdið svokallaðri húsasótt (e. sick building syndrome) hjá þeim sem í húsunum búa og starfa en einkenni hennar eru m.a. höfuðverkur, pirringur í augum og nefi, svimi og ógleði. Þótt einkennin séu yfirleitt tímabundin getur langvarandi viðvera í slíkum veikum húsum leitt til alvarlegri kvilla og sjúkdóma.

(Heimild: Bokalders, V: Byggekologi, 2004)

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is