Loftræsing

Eitt af því sem hefur mikla þýðingu við hönnun umhverfisvænna bygginga er loftræsing þeirra. Við hönnun loftræsingar í Sesseljuhús var eftirfarandi haft að leiðarljósi:

   1. Hreint og gott loft innanhúss.
   2. Þægilegt hitastig innanhúss.
   3. Lágmarks orkunotkun.

Hönnun miðaði einnig að því að nota einungis efni sem óskaðleg eru heilsu manna, að loftræsing yrði lághraða (displacement) og að nota stýringar til að lágmarka orkunotkun og koma í veg fyrir sóun.

Loftræsikerfið er svokallað blandað kerfi (hybrid system) en þá er loftræsing ýmist drifin áfram af náttúrlegum kröftum eða með aðstoð viftu. Viftan er einungis notuð þegar kringumstæður eru mjög óhagstæðar, eða þegar hiti fer yfir 15° í ákveðinni vindátt sem ekki er ríkjandi á svæðinu. Miðað við óbreyttar veðurfarsaðstæður á Sólheimum má gera ráð fyrir að viftan verði ekki notuð nema í undantekningartilfellum, undir 5% af tímanum sem húsið er í notkun.

ventilation

Til að skilja kerfið örlítið betur er gott að hafa í huga að af fólki stafar bæði hiti og mengun í formi CO2. Loftræsikerfið veitir fersku lofti inn í húsið, lofti sem er 2 til 5 gráðum kaldara en innihitinn. Ferska loftið leitar inn í Sesseljuhús gegnum inntaksvirki aftan við bygginguna. Frá því er það leitt undir húsið gegnum stórt rör og hitnar loftið örlítið á þeirri leið. Eftir að rörinu sleppir er loftið er svo forhitað með aðstoð varmaskiptis. Þá er því hleypt undir gólf hússins og leitar það svo upp um ristar í gólfunum. Loftstraumurinn er hægur og er hiti loftsins ávallt aðeins lægri en hitastigið inni í byggingunni. Loftið dreifir úr sér þegar það rís upp um ristarnar og stígur upp þegar það mætir fólki eða öðrum varmagjöfum.

Kerfið kallast lághraða þar sem loftstraumurinn fer sér hægt, þ.e. ekki er blásið inn af neinum krafti. Þegar ferska loftið leikur um fólk og inniviði rýma, hitnar það og stígur upp á við. Á leið sinni upp hreinsar það mengunina sem fyrir er og dregur hana með sér upp, undir loft. Þar leitar loftið sem nú er orðið óhreint, út um þaktúður eða -háfa. Allt gerist þetta fyrir tilstilli hitastigsbreytinga og stundum vinda. Því verða til hæðarskil í húsinu, fyrir ofan þau er heitt loft af slæmum gæðum en fyrir neðan skilin er loftið hreint, ferskt og við þægilegt hitastig. Reiknað var út að skil þessi liggja vel fyrir ofan höfuð fólks í Sesseljuhúsi. Gestir þar eru því staddir í þægilegu umhverfi, bæði hvað varðar hitastig innanhúss og loftgæði.

P0007380

Loftræsing af þessari gerð er talin vera um 40% áhrifameiri en hefðbundið loftræsikerfi sem byggir á loftblöndun. Því þarf að veita minna af fersku lofti inn sem hefur í för með sér lægri hitunarkostnað og tilheyrandi orkusparnað. Orkusparnaður næst einnig fram við það að nota varmastreymi sem stafar frá fólki og öðrum hitagjöfum innanhúss sem einskonar mótor til að drífa loftið upp og út.

Eins og áður sagði grípur svo lágþrýst, orkusparandi vifta inn í þegar skilyrði eru óhagstæð, þ.e. þegar náttúrleg öfl eins og vindur og hitastigsbreytingar duga ekki til að sjá húsinu fyrir hreinu og góðu lofti.

Um smíði og uppsetningu loftræsikerfis sá fyrirtækið Þ H Blikk á Selfossi.

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is