Hönnun

Allar verklegar framkvæmdir, hvort sem um er að ræða húsbyggingar eða önnur mannvirki, hafa mikil áhrif á sitt nánasta umhverfi, bæði á framkvæmdatíma og á líftíma mannvirkisins. Æskilegt er í umhverfislegu tilliti að lágmarka þessi áhrif og var það haft að leiðarljósi við hönnun og smíði Sesseljuhúss.

Reynt var að halda uppgreftri í algeru lágmarki og gætti Sigurjón Hjartarson jarðvinnuverktaki þess vel að grafa ekki utan graftarmarka og  raska ekki svæðum utan þeirra. Aðkomuleiðir að grunninum og vinnuslóðar voru ennfremur staðsett í framtíðarstæðum stíga að húsinu. Allur uppgröftur var endurnýttur, mold í landmótun og ræktun innan Sólheima, en annar uppgröftur í landmótun einvörðungu.

Þar sem hönnunarforsendur Sesseljuhúss voru þær að húsið skyldi teljast umhverfisvænt voru ekki valdar óvistvænar útfærslur í hönnun þegar þess var nokkur kostur. Í öllu hönnunarferlinu var ávallt leitað að hagkvæmustu, vistvænu lausninni að teknu tilliti til íslenskra aðstæðna.

Við hönnun Sesseljuhúss miðaði arkitekt þess, Árni Friðriksson, við að húsið félli sem best inn í landið. Þak er tyrft og myndar það því samfellda heild við aðliggjandi tún. Litir hússins eru í jarðtónum sökum efnisvals utanhúss, húsið er tiltölulega lágreist og það samsvarar landhalla á þessum stað. Allt þetta gerir það að verkum að byggingin æpir ekki á athygli þess sem þar fer hjá, svo segja má að tilgangi um lágmarksröskun aðliggjandi umhverfis hafi náðst.

Um hönnun lóðarfrágangs við Sesseljuhús sá Birkir Einarsson landslagsarkitekt.

P0007424

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is