Nám og fræðsla

Eitt af mikilvægustu markmiðum Sesseljuhúss er alhliða fræðsla um umhverfismál fyrir nemendur á öllum skólastigum, sem og almenning. Sesseljuhús er í samstarfi við ýmsa aðila með fræðlsu, má þar nefna Grunnskólann Ljósuborg, sem er grannskóli Sólheima og háskólasamtökin CELL svo fátt eitt sé nefnt. Ýmsar fræðslusýningar í húsinu, sýningin Hrein orka – betri heimur er fastasýning sem fjallar um sjálfbæra orkugjafa og er jafnframt stærsta sýningin. Á hverju sumri eru nokkrar nýjar sýningar opnaðar um efni sem tengist umhverfismálum og röð fræðslufunda er jafnframt í húsinu á hverju sumri, þar sem sérfræðingar á mismunandi sviðum umhverfismála fræða áhugasama um ýmis áhugaverð málefni. Allir eru velkomnir á sýningarnar og fræðslufundina og er aðgangur ókeypis.

Myndaskyggnusýning og gönguferð með leiðsögn


Sólheimar hafa áralanga reynslu í móttöku ferðamanna. Á boðstólum er metnaðargjörn móttökudagskrá fyrir hópa sem samanstendur af myndaskyggnusýningu og fyrirlestri í Sesseljuhúsi um sögu og starfsemi Sólheima. Síðan er farið í gönguferð með leiðsögn um svæðið og vinnustofur sóttir heim. Að lokum gefst fólki færi á að fara í verslunina Völu og ef óskað er eftir, njóta veitinga í lífræna kaffihúsinu Grænu könnunni. Dagskráin tekur um það bil 1,5 – 2 klukkustundir.Sesseljuhús býður jafnframt upp á fræðslupakka sem kallast Sjálfbær þróun og Sólheimar. Þar er fjallað almennt um sjálfbæra þróun, sjálfbærar byggingar og hvernig starfið á Sólheimum hefur tekið mið af umhverfismálum allt frá stofnun, árið 1930.

Fræðslupakkinn hefst á kynningu í ráðstefnusal þar sem fjallað er almennt um sjálfbæra þróun og sýndar myndir úr sögu Sólheima. Einnig er fjallað um hvaða kröfur eru gerðar til sjálfbærra bygginga og hvernig Sesseljuhús stenst þessar kröfur. Að kynningu lokinni er hópurinn leiddur í gegnum sýninguna ‘Hrein orka – betri heimur’ sem fjallar um endurnýjanlega orkugjafa. Fræðslunni lýkur með gönguferð um byggðahverfið Sólheima þar sem fróðleikurinn úr kynningu og sýningu lifnar við.

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is