Nýr Prestur vígður til þjónustu á Sólheimum

Sunnudaginn 15. nóvember fór fram prestvígsla í Skálholtsdómkirkju. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup vígði Jóhönnu Magnúsdóttur, cand theol, sem mun starfa sem sérþjónustuprestur á Sólheimum.

Prófasturinn séra Halldóra Þorvarðardóttir lýsti vígslu. sóknarpresturinn séra Egill Hallgrímsson þjónaði fyrir altari. Vígsluvottar voru séra Valgeir Ástráðsson, í fulltrúaráði Sólheima, séra Elína Hrund Kristjánsdóttir sóknarprestur í Odda, Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima og séra Birgir Thomsen prestur á Sólheimum. Skálholtskórinn sá um sönginn undir stjórn kórstjórans og organistans Jóns Bjarnasonar.

Fjölmenni var við athöfnina, sem var hin hátíðlegasta í alla staði. Skálholtskirkja var svo að segja fullsetin, enda voru þar mættir til leiks flestir íbúar, starfsfólk og sjálfboðaliðar á Sólheimum, ásamt öðrum gestum. Eftir athöfn var boðið til messukaffis í Skálholtsskóla, en sá Sölvi B. Hilmarsson um veitingar, auk þess sem bakarinn okkar á Sólheimum, hún Dörthe Zenker bakaði hjónabandssælu, eplakökur og hnellur sem runnu ljúflega ofan í mannskapinn!

Vígslan var veisla fyrir sál og líkama, og erum við á Sólheimum þakklát fyrir vel heppnaðan og fagran dag í Skálholti.


mynd IMG_9172 IMG_9189 IMG_9208 IMG_9242 IMG_9275 (1) vígsla
 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is