Laugardaginn 21 apríl Karlakórinn Söngbræður í Sólheimakirkju klukkan 16:00

Hluti af Karlakórnum Söngbræður heldur tónleika í Sólheimakirkju klukkan 16:00

Laugardaginn 21 apríl  

Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá.

Stjórnandi: Viðar Guðmundsson

Meðleikari: Birgir Þórisson

Allir velkomnir ókeypis aðgangur 

Um að gera að skella sér í leikhúsið klukkan 14:00 á Úlfar ævintýranna og flotta tónleika á eftir.

 

Söngbræður

Karlakórinn hefur starfað frá haustinu 1978 er söngmenn úr Hálsasveit og Hvítársíðu hófu að æfa fjórradda söng í félagsheimili sínu, Brúarási. Það var um það bil þrefaldur kvartett. Fyrstu árin gekk sönghópurinn, þá enn nafnlaus, hægum og hikandi skrefum út í lífið en efldist smám saman að fjölda og getu, jafnframt því sem félagssvæði hópsins stækkaði. Áhrifasvæði hans breiddist út um Borgarfjörð og vestur Mýrar, um Dali og allt norður á Strandir sem og suður um Akranes og jafnvel til Reykjavíkur. Margir félagar leggja því á sig langar reisur til þess að komast á æfingar. Segir það sitt um félagsskapinn.  Fyrsti söngstjórinn var Sigurður Guðmundsson, bóndi og organisti á Kirkjubóli í Hvítársíðu, er flokknum stýrði í 16 ár. Án framlags hans hefði ekki orðið úr þessu starfi. Þegar sýnt þótti að flokkurinn yrði meira en stundarfyrirbæri tók hann sér nafnið Söngbræður, og vottaði með því virðingu sína „söngfjelaginu Bræðurnir“, sem Bjarni Bjarnason frá Skáney í Reykholtsdal stofnaði vorið 1915 og stýrði um áratugaskeið fram undir miðja öldina. Það var hinn fyrsti karlakór sem í Borgarfjarðarhéraði starfaði. Ekki voru bein tengsl við þann kór svo að ekki þótti rétt að taka nafn hans upp óbreytt.

Hin síðari árin hafa söngmenn kórsins verið 30-40. Æft hefur verið einu sinni í viku frá lokum sláturtíðar framundir sauðburð. Síðustu árin hefur kórinn notið aðstöðu til æfinga að Bifröst í Borgarfirði.

Auk þess að koma fram við fjölmörg tækifæri í heimasveitum söngmanna hefur kórinn farið söngferðir bæði innanlands og utan. Farið hefur verið um Vesturland og Vestfirði, einnig Norðurland, höfuðborgarsvæðið og Suðurland allt til Vestmannaeyja. Þá hefur kórinn farið til Írlands, Póllands, Tékklands og Austurríkis. Á öllum þessum stöðum hefur verið gerður góður rómur að söng kórsins.  Árið 1999 gaf kórinn út hljómdiskinn „Vorvindar“ með  söng kórsins, sýnishornum úr söngskrám áranna þar á undan en frá árinu 1994 hafði Jacek Tosik-Warszawiak stjórnað kórnum. Síðustu árin hefur Viðar Guðmundsson bóndi og tónlistarmaður á Miðhúsum í Kollafirði stjórnað honum til enn vaxandi vinsælda.  Kórinn hefur ekki látið sér nægja að flytja sígild karlakórsverk heldur í vaxandi mæli flutt tónlist af öðrum toga svo sem létta tónlist sem vinsælda hefur notið í öðrum búningi.

Ekki höfum við tölu á öllum þeim sem lagt hafa karlakórnum Söngbræðrum lið í áranna rás sem almennir söngmenn, einsöngvarar, meðleikarar, söngþjálfarar og fleira. Öllum þeim erum við Söngbræður þakklátir og ekki síður þeim mörgu sem komið hafa til samsöngva okkar og glaðst með okkur.

„Söngurinn göfgar, hann lyftir í ljóma lýðanna kvíðandi þraut“ kvað Matthías. Undir það getum við Söngbræður tekið.

BG 


 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is