Sorpmál á Sólheimum

Á hverjum degi fellur til ýmislegt á heimilum sem endar í ruslatunninni. Þróunin á samfélagi okkar síðustu áratugi hefur leitt til sífellt meira sorpmagns og meiri fjármunum er varið í sorphirðu og sorpurðun. Þó er ýmislegt í ruslafötunni sem hægt er að endunýta og því má segja að í sorpi felist ákveðið auðlindagildi. Á hverju ári skilar hver Íslendingur af sér að meðaltali um 345 kg af heimilissorpi sem skiptist eins og myndin hér að neðan sýnir. Með því að flokka og endurvinna sorp minnkar það sorpmagn sem þarf að urða og felst í því bæði beinn sparnaður og minna álag á náttúruna. Í þessum bæklingi er fjallað um sorpflokkun og endurnýtingu sorps á Sólheimum. Með hliðsjón af myndinni og þeim flokkunarmöguleikum sem standa til boða á Sólheimum væri hægt að endurnýta um 60% af heimilissorpi byggðahverfisins. Markmið Sólheima er að leita stöðugt nýrra úrræða til að auka endurnýtingu og endurvinnslu og taka þannig
samfélagslega ábyrgð, hlífa náttúrunni og spara peninga í leiðinni.

Matur verður molta
Á Sólheimum er matarafgöngum frá heimilum og mötuneyti safnað og þeim breytt í næringarríkan áburð sem kallast molta. Myndin hér að neðan sýnir þá hringrás næringarefna sem fæst með jarðgerðinni. Á hverju heimili er matarleifum safnað í sérstaka körfu sem í er poki úr sterkju. Þegar pokinn er fullur er honum lokað og hann settur í svokallað Bíóhús, sem er hirsla fyrir utan hvert hús. Reglulega er farið um byggðahverfið og pokunum safnað úr Bíóhúsunum og þeir settir í jarðgerðarvélina frú Jarðgerði. Þar brotnar bæði pokinn og innihald hans niður og breytist í moltu sem er síðan nýtt hjá bæði skógræktarstöðinni Öl og garðyrkjustöðinni Sunnu.

Kostir jarðgerðar
Lífræn efni og næringarsölt glatast ekki heldur nýtast sem náttúrulegur áburður. • Mengun vegna flutnings, brennslu eða urðunar heimilisúrgangs dregst saman sem nemur hlutfalli lífræns úrgangs frá heimilum. • Minni þörf verður fyrir sorpmóttöku og sorpflutninga og kostnaður vegna sorpeyðingar minnkar. • Allir fá tækifæri til að vinna að umhverfismálum og bera persónulega ábyrgð á þeim. • Eykur skilning og þekkingu fólks, ekki síst hjá börnum, á
náttúrulegri hringrás lífrænna efna. (heimild: Sorpstöð Suðurlands)
jardgerdur
Jarðgerðarvél á Sólheimum

Endurvinnsla og endurnýting
Flokkun og endurvinnsla sorps krefst skipulags, bæði á heimilum og á flokkunarstöðum. Þó vilji sé til staðar að flokka allt sorp þá þurfa flokkunarmöguleikarnir að vera í samræmi við þá þjónustu sem sveitarfélag staðarins býður upp á. Til að lágmarka þann kostnað sem hlýst af sorpflutningi leitast Sólheimar við að endurnýta og endurvinna eins mikið sorp og mögulegt er staðbundið, það er á Sólheimum. Á flokkunarstöð Sólheima er bjóðast
eftirfarandi flokkunarmöguleikar: Pappír, fernur, gler,málmar,plast, flöskur/umbúðir, lífrænt sorp, almennt sorp og kertaafgangar. Einnig er á Sólheimum fatagámur frá Rauða krossinum þar sem hægt er að gefa föt. 

DSC02756
Frá endurvinnslusýningu í Sesseljuhúsi

Lágmörkun sorps
Innan umhverfisfræðinnar er stundum sagt “það er ekkert burt” (á ensku “there is no away”). Með því er átt við að þó við losum okkur við sorp og því er ekið í burtu frá okkur þá lendir það alltaf einhvers staðar á okkar sameiginlegu Jörð og veldur þar mengun. Til að lágmarka þessa mengun liggur beinast við að lágmarka sorpið. En hvernig er það hægt? Jú, með ábyrgum framleiðsluháttum, umhverfismiðuðum neysluvenjum, flokkun á sorpi og endurvinnslu. Hlutverk neytandans er að segja “nei takk” við óþarfa umbúðum sem enda hvort eð er í ruslafötunni og flytja þarf langa vegalengd til endurvinnslu, oft til annarra landa. Því er mikilvægt að fólk velji umbúðir vandlega og beri ekki heim með sér
óþarfa.

Viltu vita meira?
Fjölmargar heimasíður íslenskra fyrirtækja og stofnana innihalda fróðleik um sorpmál og almennar upplýsingar um umhverfismál.

∗ Umhverfisstofnun: www.ust.is

∗ Sorpa: www.sorpa.is

∗ Sorpstöð Suðurlands: www.sorpstodsudurlands.is

∗ Umhverfisvefur Reykjavíkurborgar: www.umhverfisvefurinn.is

∗ Endurvinnslan: www.endurvinnslan.is

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is