Val á byggingarefni

Flest öll byggingarefni geta talist bæði góð og slæm eftir því hvaða viðmið eru notuð. Þegar velja á byggingarefni út frá umhverfissjónarmiði þarf að hafa tvennt í huga:

   1. Hvaða áhrif hefur það á heilsufar og vistkerfið?
   2. Hver eru umhverfisáhrif af framleiðslunni?

Hefðbundin byggingarefni eru í fæstum tilfellum umhverfisvæn því hráefnin eru sótt úr jörðu eða höggvin úr skógum, framleiðsla þeirra getur valdið  loftmengun og oft er þörf á mikilli orku í framleiðsluferlinu. Að auki gefa sum byggingarefni frá sér mengandi efni og önnur valda spjöllum þegar líftími þeirra er liðinn. Þegar velja á byggingarefni í sjálfbæra byggingu er æskilegt að efnið sé sótt úr endurnýjanlegri auðlind, lítilli orku hafi verið veitt í vinnslu þess, mengun í framleiðslu sé lítil, ekki sé um að ræða mikið frákast og að efnið sé skaðlaust heilsu manna.

Það fyrsta sem verður að athuga þegar byggingarefni er til skoðunar er hvort það uppfylli kröfurnar sem gerðar eru til þess. Það er ekkert vit í því að velja efni sem er umhverfisvænt ef það virkar ekki sem skyldi eða veldur hættu sökum slakra eiginleika eða styrks. Örðugt getur reynst að skera úr um hvort efni sé vistvænt og hvaða efni sé vistvænast þegar um fleiri en einn kost er að ræða. Oft eru upplýsingar um efnin frá framleiðendum þeirra og gætir þar ef til vill hlutdrægni eða þá að efnið hefur ekki verið notað áður.

Eftirfarandi spurningalisti einfaldar ákvarðanatöku í efnisvali vegna hönnunar umhverfisvænna bygginga þótt spurningarnar byggi aðallega á heilbrigðri skynsemi. Því fleiri jákvæð svör, því umhverfisvænna er efnið sem um ræðir.

    * Er efnið úr endurnýjanlegri auðlind?
    * Er efnið nýtt í samræmi við endurnýjun auðlindarinnar?
    * Er efnið innlent eða framleitt innanlands?
    * Er efnið af góðum gæðum og er ending þess góð?
    * Er efnið hættulaust, þ.e. ekki heisluspillandi?
    * Er framleiðsla á efninu umhverfisvæn?
    * Er hægt að losna við efnið, við lok líftíma þess, án þess að valda umhverfisspjöllum?

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is