Umhverfisáhrif bygginga

Verklegar framkvæmdir, hvort sem um er að ræða húsbyggingar eða önnur mannvirki, hafa ávallt mikil áhrif á sitt nánasta umhverfi, bæði á framkvæmda-tíma og á líftíma mannvirkisins. Æskilegt er í umhverfislegu tilliti að lágmarka þessi áhrif og var það haft að leiðarljósi við hönnun og smíði Sesseljuhúss.
Til að ná þessu markmiði fram var reynt að halda uppgreftri í algeru lágmarki. Jarðvinnuverktaki, Sigurjón Hjartarson, gætti þess vel að grafa ekki utan graftarmarka og að því að raska ekki svæðum utan þeirra. Aðkomuleiðir að grunninum og vinnuslóðar voru ennfremur staðsett í framtíðarstæðum stíga að húsinu. Allur uppgröftur var endurnýttur, mold í landmótun og ræktun innan Sólheima, en annar uppgröftur í landmótun einvörðungu. Við hönnun hússins miðaði svo arkitekt þess, Árni Friðriksson, við að húsið félli sem best inn í landið. Þak er tyrft og myndar það því samfellda heild við aðliggjandi tún. Litir hússins eru í jarðtónum sökum efnisvals utanhúss, húsið er tiltölulega lágreist og það samsvarar landhalla á þessum stað. Allt þetta gerir það að verkum að byggingin æpir ekki á athygli þess sem þar fer hjá, svo segja má að tilgangi um lágmarksröskun aðliggjandi umhverfis hafi náðst. Um hönnun lóðarfrágangs við Sesseljuhús sá Birgir Einarsson landslagsarkitekt.

Umhverfisvæn hönnun
Við hönnun umhverfisvænna bygginga er engin ein aðferð sem beita má við allar aðstæður. Öll byggingarefni geta talist bæði góð og slæm og fer það eftir því hvaða viðmiðun er notuð. Hefðbundin byggingarefni eru því miður í fæstum tilfellum umhverfisvæn. Hráefni hefur verið sótt úr jörðu eða höggvið úr skógum, framleiðsla veldur mengun andrúmslofts og mikil orka hefur verið notuð í framleiðsluferlinu. Að auki gefa sum efni frá sér mengandi efni eftir að þeim hefur verið komið fyrir og önnur valda spjöllum þegar líftími þeirra hefur runnið sitt skeið.

Til æskilegra kosta byggingarefna teljast þeir kostir að efnið sé sótt úr endurnýjanlegri auðlind, lítilli orku hafi verið veitt í vinnslu þess, mengun í framleiðslu sé lítil, ekki sé um að ræða mikið frákast og að efnið sé skaðlaust heilsu manna.

Við hönnun Sesseljuhúss var efnisvali hagað þannig að öll efni sem notuð voru í byggingunni eru æskilegir valkostir í umhverfislegu tilliti. Áhersla var einnig lögð á notkun endurnýjanlegra orkugjafa og umhverfisvæna meðhöndlun frárennslis. 

Fræðsluerindi

Sorpmál á Sólheimum – endurskoðun í janúar 2007.

Í nútímaþjóðfélagi fellur til sífellt meira sorp og er sorphirða orðin stór kostnaðarliður hjá sveitarfélögum. Sorp veldur líka miklu álagi á náttúruna og því mikilvægt að stuðla að minnkun sorpmagns. Á Sólheimum hafa verið innleiddar nýjungar í sorpmálum og voru þær kynntar íbúum 10. janúar sl. Kynningin fylgir hér á eftir.

Skoða kynningu.

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is