Frárennsli

Frá árinu 1999 er skylt að hreinsa allt fráveituvatn á Íslandi. Hefðbundnar skólphreinsistöðvar hreinsa smitandi efni svo meðhöndlað vatn mengi ekki vötn og ár. Í náttúrlegum hreinsivirkjum er næringarefnum skólps að auki skilað aftur til náttúrunnar. Á Sólheimum er starfrækt fyrsta náttúrlega hreinsivirkið á Íslandi. Um er að ræða svokallað „tilbúið votlendi“ . Er það samansett úr nokkrum þrepum sem hafa þann tilgang að skila skolpi staðarins hreinu frá sér að þeim loknum.

Fyrsta hreinsunarþrepið er rotþró þar sem forhreinsun skolps fer fram. Þaðan er affallið leitt gegnum næstu þrep sem samanstanda af fjórum reitum af tilbúnu votlendi sem meðal annars eru mynduð úr hinum ýmsu íslensku votlendis plöntum . Votlendi sem vistkerfi tekur upp mikið magn næringarefna vegna mikillar grósku og framleiðni og er það því kjörið til hreinsunar skolps.

Í tilbúnu votlendi eru næringarefni sem finna má í skólpi nýtt um leið og hreinsun skolpsins fer fram. Þar myndast fljótlega vistkerfi sem samanstendur af plöntum, örverum og smádýrum og fellur inn í aðliggjandi landslag og umhverfi. Um er að ræða vistvæna fráveitu sem aukinheldur er ódýr og einföld.

Í Sesseljuhúsi var ákveðið að halda áfram brautryðjandastarfi Sólheima í frárennslismálum og miða enn frekar að fullkomlega vistvænu fráveitukerfi. Markmiðið var að skila öllu skolpi frá húsinu út í náttúruna, hreinu og án þess að valda nokkurri mengun. Í því skyni var sett upp svokölluð skolpskilja sem ekki hefur þekkst áður hérlendis.

Skolpskiljan eða „Aquatron“ hefur það hlutverk að aðskilja fast skolp frá fljótandi skolpi og breyta föstu skolpi með náttúrulegu niðurbroti í gróðurmold. Skýringarmyndin fyrir neðan sýnir hvernig skolpskiljan virkar:

klosett1. Skolpskiljan (1)  er tengd öllum klósettum í Sesseljuhúsi, 5 alls. Skolp úr þeim er leitt að skiljunni gegnum frárennslispípur.

2. Skolpið úr klósettunum (2)  skolast gegnum skilju sem aðskilur fast skolp frá fljótandi. Aðskilnaður er um 98%. Ekki er um að ræða neinn vélbúnað, aðskilnaðurinn á sér stað fyrir tilstilli miðflóttaafls.

3. Fast skolp og klósettpappír (3)  falla ofan í hólf þar sem náttúrulegt niðbrot þess á sér stað með aðstoð orma. Ormarnir brjóta efnið niður í um 5% af upphaflegu rúmmáli þess. Safnþrærnar eru fjórar og er þeim snúið þannig að nýtt hólf tekur við á um þriggja mánaða fresti. Að ári liðnu er úrgangurinn í fyrsta hólfinu orðinn að gróðurmold sem nota má við ræktun.

4. Fljótandi skolpi (4)  er veitt að tilbúna votlendinu sem sér um að hreinsa það og skila því út í náttúruna, hreinu og tæru.

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is