Byggingarefni

Öll byggingarefni sem notuð voru í Sesseljuhúsi eru æskilegir valkostir í umhverfislegu tilliti. Áhersla var lögð á  notkun endurnýjanlegra orkugjafa og umhverfisvæna meðhöndlun frárennslis. Tekið var tillit til uppruna efnis, framleiðslu og endurnýtingu þess og miðað við íslenskar aðstæður því í fræðum um sjálfbærar byggingar fyrirfinnst engin ein aðferð sem beita má óháð umhverfi.

Timbur

Flest virðist benda til þess að timbur sé umhverfisvænasta almenna byggingarefnið sem völ er á. Timbur er fengið úrendurnýjanlegri auðlind og er afrakstur sólarorku. Að auki framleiða tré súrefni og nota til þess koldíoxíð, CO2 úr andrúmsloftinu. Því er hvorki mikil mengun eða orkunotkun samfara notkun timburs.

Þó getur ekki öll notkun timburs talist umhverfisvæn. Kemur þá helst tvennt til. Í fyrsta lagi þarf að taka tillit til þess hvaðan timbrið kemur því það verður að vera úr endurnýjanlegum skógi til að teljast umhverfisvænt. Í endurnýjanlegum skógi er nýjum trjám plantað í samræmi við skógarhögg. Í öðru lagi verður að huga að því hvernig timbrið er fúavarið. Flest hefbundin fúavarnarefni eru mjög óumhverfisvæn. Til eru óhefðbundnar leiðir til fúavarnar sem ekki skaða umhverfið.

Timbur sem byggingarefni býr yfir ágætum eiginleikum. Togstyrkur þess er hár og það er sveigjanlegt. Burðargrind Sesseljuhúss er að mestu úr timbri og veggir eru einnig klæddir með því. Límtré var einnig notað í burðargrind Sesseljuhúss. Kostir þess eru margir, meðal annars þeir að í límtré eru notaðir hlutar trjáa sem annars ekki nýtast (small section timber) og að límtré spannar stór höf. Límið sem notað er við framleiðslu límtrés er raunar ókostur en þar sem límið sem notað er í límtré inniheldur ekki mikið formaldehýð er sá ókostur ekki mjög veigamikill.

Timbur í Sesseljuhús var fengið frá BYKO en límtréð frá fyrirtækinu Límtré.

P0007407

Málning

Öll málning inniheldur leysiefni. Leysiefni, eins og nafnið bendir til, leysast upp með útgufun. Þessi útgufun veldur því að málning þornar eftir að hún hefur verið borin á. Vegna þessarar útgufunar losna efnasambönd leysiefnanna út í aðliggjandi loft sem fólk andar svo að sér.

Lítið hefur verið um notkun lífrænnar málningar á Íslandi. Lífræn málning inniheldur náttúruleg leysiefni, ólíkt olíumálningu og vatnsmálningu sem eru að auki báðar slæmar hvað varðar mengun í framleiðslu. Lífræn málning gefur mun minna frá sér af leysiefnum eftir notkun en olíu- og vatnsmálning, auk þess sem hún brotnar eðlilega niður í náttúrunni.

Öll málning í Sesseljuhúsi er  frá fyrirtækinu Livos sem hefur um árabil framleitt vörur sem unnar eru úr 100% náttúrulegum hráefnum.

Þ.Þorgrímsson flytur inn vörur Livos til Íslands

Ullareinangrun


Það þarf ekki að fara mörgum orðum um ágæti íslensku ullarinnar þegar kemur að klæðnaði og ábreiðum. Ullin er hlý, hún blotnar seint og þó hún blotni heldur hún engu að síður áfram að vera hlý. Það að einangra hús með lambsull er hinsvegar ekki algengt og fólk þekkir því síður kosti þess. Sagt er að glöggt sé gests augað og á það vel við í þessu tilfelli, sá sem fyrstur varð til að nota íslenska lambsull til einangrunar húss hér á landi á okkar tímum, var aðfluttur Íslendingur að nafni George Hollanders.

Fyrirtækið Ístex lagði til íslensku lambsullina sem notuð var í einangrun gólfa og veggja Sesseljuhúss. Alls voru notuð 3.870 kg af ull sem samsvarar ull af um það bil 2.400 kindum. Notuð var ull af flekkóttu fé sem hefur jafngott einangrunargildi og hvít ull en hentar síður í hefðbundna ullarvöru framleiðslu.

Ullin var lítið unnin, hún var þvegin við 45°C í vatni með léttsóda sem er áþekkur matarsóda. Sódinn hefur þann eiginleika að hann myndar náttúrulega sápu þegar hann kemst í samband við fituna í ullinni. Því næst var ullin þvegin með umhverfisvænni sápu, hún skoluð tvisvar sinnum og þurrkuð. Áður en ullin var kembd, var hún soðin í háþrýstipotti með blöndu af vatni og Borax-salti, sem hindrar ágang skordýra og möls. Steinefnið borax hefur til margra alda verið notað til að fúaverja timbur. Samkvæmt bandaríska skógareftirlitinu er steinefnið Borax skaðlaust mönnum og dýrum og er m.a. notuð sem áburður. Borax nýtist ekki aðeins sem fúa-, skordýra- og nagdýravörn heldur eykur það einnig brunaþol ullarinnar, þannig að hún stenst gildandi staðla í Evrópu. Ullin var síðan kembd í kembivél og kembunni rúllað upp og pakkað í strigapoka. Með þessu móti fæst 100% náttúrulegt einangrunarefni sem krefst ekki hlífðarbúnaðar af neinu tagi þegar verið er að koma því fyrir.

Einangrunargildi ullar er svipað og fyrir þurra steinull, en ef raki kemst í einangrunina hefur kindaullin mikla yfirburði. Ull af kindum hefur nefnilega þann eiginleika að geta dregið í sig raka sem nemur allt að 1/3 af eigin þyngd án þess að tapa einangrunargildi sínu. Ullin losar sig svo við rakann þegar loft er þurrara og hjálpar þannig til við að halda rakastigi hússins jöfnu. Hún gerir það án þess að rakinn þéttist eins og ef um efni sem hrinda frá sér vatni væri að ræða.

Stór kostur við ullina er einnig sá að orkan sem fer í framleiðslu ullareinangrunar er hverfandi miðað við flest önnur einangrunarefni. Nýlegar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að keratín, efni sem finnst í ull, eyðir hættulegum efnum til dæmis formaldehýði, ósoni og ýmsum leysiefnum sem finnast í nútíma byggingarefnum. Vegna þessara eiginleika hefur ullin í auknu mæli verið notuð erlendis til að bæta andrúmsloft í opinberum byggingum sem valda húsasótt (sick-building syndrome), meðal annars í sjúkrahúsum, dagheimilum og skólabyggingum.

Pappírseinangrun

Í einangrun þaks í sýningarskála Sesseljuhúss var notuð pappírseinangrun. Uppistaðan í pappírseinangrun er sellulósi en svo nefnast trefjar trjáa og plantna. Um er að ræða endurunnið efni en pappírseinangrun er framleidd úr afgangsbirgðum dagblaða, bóka og símaskráa. Bækurnar og blöðin eru einfaldlega tætt og síðan meðhöndluð með Boraxi á sama hátt og lambsullareinangrunin. Útkoman verður einangrunarefni með hátt brunaþol sem litla orku þarf til að framleiða og myndað er úr endurunnu efni, efni sem annars yrði að farga. Pappírstætlunum er síðan þjappað saman í bagga til að einfalda flutning og gera hann hagkvæmari.

Pappírseinangruninni er komið fyrir í hólfum húsa með aðstoð blástursvéla sem í senn losa um pappírstætlurnar í böggunum með aðstoð snúningsblaða. Efninu er blásið um langa slöngu, ekki ósvipaðri ryksugubarka, og leiðir hún einangrunarefnið þangað sem koma á því fyrir, í tilfelli Sesseljuhúss í loft sýningarskálans og hluta veggja.

Skilin voru eftir göt fyrir stút barkans á blástursvélinni í loftinu og var þeim svo lokað eftir að búið var að fylla holrými með pappírseinangrun. Sprauta má einangrun í veggi áður en þeim er lokað. Pappírseinangrun má einnig nota í gólf þótt ull hafi verið notuð í Sesseljuhúsi.Auk eingrunar með pappír og með lambsull var einangrað með hör í eitt veggbil hússins.

P0007416

Raflagnir og lýsing

Við hönnun raflagna og val á búnaði í Sesseljuhúsi var leitast við að taka tillit til umhverfissjónarmiða, þ.e. notuð væru sem náttúrulegust efni með lágu orkuinnihaldi, að nýting orku væri sem best og að efni væru að mestu endurvinnanleg. Lagnaleiðir og strengir voru hafðar sem stystar til að lágmarka efnismagn og strengjastigar gerðir úr timbri sem er nýjung.

Lampar voru fyrst og fremst valdir með það í huga að orkunýting væri góð en einnig lögð áhersla á þægindi þeirra sem starfa og heimsækja Sesseljuhús. Lýsingu er auðvelt að breyta með breyttum áherslum í notkun hússins. Um raflagnir sá fyrirtækið Fossraf á Selfossi. Lampar voru fengnir frá fyrirtækjunum Smith og Norland og frá GH Heildverslun.

Sesseljuhús er fyrsta samtímabyggingin á Íslandi sem er 100% laus við polývínýlklóríð (PVC). PVC er talið óvistvænt, það krefst mikillar orku í framleiðslu og í það eru notaðar óendurnýjanlegar auðlindir, olía og gas. Að auki er ekki hægt að endurvinna PVC, það leysist ekki upp náttúrulega að líftíma þess loknum og getur verið skaðlegt heilsu manna. Útgufun frá efninu er talin geta valdið krabbameini, öndunarsjúkdómum og húðsjúkdómum. Við brennslu gefur PVC frá sér banvæn efnasambönd.

P0007418

Rekaviður

Sesseljuhús er allt klætt að utan með íslenskri viðarklæðningu sem framleidd úr rekaviði úr fjöruborðinu á Ströndum. Rekaviðarklæðning er sú umhverfisvænasta sem völ var á, í fyrsta lagi er efnið frákast og því verið að nýta efni sem annars færi forgörðum. Í öðru lagi hefur volk í sjónum gert það að verkum að viðurinn í klæðningarborðunum er saltmettaður og krefst því ekki frekari viðarvarnar.

Talið er að rekaviðurinn berist alla leið frá ströndum Síberíu, aðallega frá stórfljótum Síberíu eða Ob, Jenisej, Katanga og Lena. Norðaustlægir yfirborðsstraumar bera rekaviðinn til hafs þar sem hann er óratíma að veltast um í sjónum áður en honum skolar á land. Honum rekur frá Síberíu þar til hann nær hafísnum sem hann fylgir svo umhverfis Norðurpólinn á 4-5 árum. Lengst úti á Norðuríshafi losnar timbrið svo úr viðjum íssins og berst að landi með straumum og vindum. Eftir þetta langa ferðalag er viðurinn orðinn gegnsýrður af salti sjávar og hefur þannig fengið náttúrulega vörn gegn fúa. Rekaviður er því oft á tíðum afbragðs smíðaviður.

Aðallega er um að ræða furu, lerki og lítið eitt af greni og ösp. Talið er að rekhraðinn sé um 400-1.000 km á ári. Víða norðanlands eru fjörur „hvítar“ af rekaviði þótt mikið af viðnum sökkvi til botns áður en hann nær Íslandsströndum. Elstu tré, sem rekur eru allt að 500 ára gömul miðað við árhringi.

P0007397driftwood

Úlfar Eyjólfsson frá Krossnesi og Sigursteinn Sveinbjörnsson frá Litlu-Árvík sáu um gerð rekarviðarklæðningarinnar.Viðarvörn

Oftar en ekki er sú viðarvörn sem borin er á timbur mynduð úr eitruðum efnasamböndum. Meðal virkra efna í viðarvörn eru PCP og fleiri sambönd sem ætlað er að drepa lífverur og gróður sem herjað geta á timbrið. Vegna þessara eitruðu eiginleika geta slík efni einnig haft skaðleg áhrif á menn, raskað erfðavísum og truflað eðlilega starfssemi ensíma þeirra.

Árið 1998 var sett í lög hérlendis reglugerð um notkun, og bann við notkun tiltekinna efna í viðarvörn. Samkvæmt henni er bannað að flytja inn, selja eða nota viðarvörn sem í er að finna kvikasilfurssambönd eða arsensambönd. Einnig er bönnuð viðarvörn sem inniheldur of há hlutföll af öðrum eitruðum efnasamböndum. Að auki er óheimilt að flytja inn, selja og dreifa timbri sem hefur verið meðhöndlað með þessum efnum svo og notkun þess í endurvinnslu.

Viður sem óumhverfisvæn viðarvörn hefur verið borin á gefur einnig frá sér skaðlegar eiturgufur þegar hann er brenndur. Það sem meira er um vert er sú staðreynd að askan sem myndast við bruna slíks viðar er baneitruð og því vandkvæðum bundið að losna við hana á einfaldan hátt. Þar sem virku efnin í viðarvörn eru ekki vatnsleysanleg verður oftast að nota leysiefni sem einnig hafa skaðleg áhrif á umhverfið og mannskepnuna við uppgufun. Fáar rannsóknir hafa því miður verið gerðar á samlegðaráhrifum þessara tveggja slæmu þátta viðarvarnar.

Í Sesseljuhúsi er viður hússins að innanverðu borinn jurtaolíu frá þýska fyrirtækinu Livos sem hefur sérhæft sig í gerð umhverfisvænnar málningar um 25 ára skeið. Vörur Livos bera stimpil Evrópusambandsins sem vottar að framleiðsluferlið sé náttúruvænt enda einungis notast við lífræn leysiefni.

Gólfefni

Gólfefni sem valin voru til notkunar í Sesseljuhúsi eru fernskonar.

   1. Linoleum gólfdúkur frá Hollenska fyrirtækinu Forbo sem er einvörðungu unninn úr náttúrulegum efnum og hefur hlotið vottun sem        umhverfisvæn vara. Fyrirtækið Kjaran ehf flytur inn vörur Forbo til Íslands.
   2. Gúmmíhellur úr endurunnum hjólbörðum frá Gúmmívinnslunni á Akureyri  
   3. Íslenskar grágrýtishellur sem Steinsmiðja S. Helgasonar sá um að gera.
   4. Parket sagað úr íslensku lerki úr Guttormslundi í Hallormsstaðarskógi en lerkið var gróðursett árið 1936. Lerkifjalirnar eru unnar af fyrirtækinu Húsavík-Harðviður og er það fyrsta gólfefnið sem það vinnur úr íslenskum trjábolum.

flooring

 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is