Orkugarður Sólheima

Hugmyndin að baki Orkugarði Sólheima er að skapa fræðslugarð um endurnýjanlega orkugjafa fyrir ferðamenn og skólahópa. Nú þegar er margt á staðnum sem nýtist í þennan garð sem verður dregið saman í eina heild og styrkir hugmyndafræði staðarins einnig grundvöll garðsins. 
Garðurinn mun nýtast til móttöku hópa, en Sesseljuhús tekur þegar á móti miklum fjölda nemenda og annarra gesta á ári hverju í fræðsluheimsóknir. Ganga um Orkugarðinn hefst í  Sesseljuhúsi en þar er orkusýnin skoðuð á sýningu á endurnýjanlegum orkugjöfum sem þegar er búið er að setja upp í húsinu síðan er gengið um merktan stíg á Sólheimum og endað í Ölri þar sem jarðgerðarvélin er staðsett. Þannig er hægt að fræðast um sjálfbæra orkuvinnslu jarðvarma, vatnsorku, vindorku og líforku (jarðgerð) samhliða þessum göngutúr fá gestir góða yfirsýn yfir byggðahverfið á Sólheimum  Með tilkomu Orkugarðsins mun skólahópum bjóðast að vinna verkefni í Sesseljuhúsi eða fræðast um önnur málefni tengd sjálfbærni og orkumálum.

Dæmi um  endurnýjanlega orkugjafa á Sólheimum eru:

 1. Sólarorka
Á þaki Sesseljuhúss er stærsta sólarsellusamstæða á Íslandi, með 15 sólarsellum sem hver er 140 W, alls því 2,1 kW. Sýnishorn af sólarsellum er á sýningunni um sjálfbæra orkugjafa í húsinu.
solarsella
 2. Jarðvarmi
Sólheimar eiga sína eigin hitaveituborholu og er heitt vatn úr henni notað við alla húshitun innan svæðisins og í heitt kranavatn. Hitaveita Sólheima er staðsett í litlu húsi í jaðri þorpsins og stefnt á að gera borholuna sýnilegri, t.d, með því að setja stóran glugga á húsið með skýringum á því hvernig jarðvarminn er nýttur. Skýrt verður á aðgengilegan hátt hvernig hitaveitur á Íslandi virka, allt frá holu til ofna.
Stitched Panorama
 3. Vatnsorka
Á Sólheimum er heitur lækur (náttúrulegur lækur þar sem í rennur affall frá hitaveitunni) sem rennur með þó nokkrum halla. Þar verður útbúin lítil örvirkjun sem sýnir hvernig vatnsorka er nýtt til raforkuframleiðslu og þannig útskýrð virkni vatnsaflsvirkjana með áþreifanlegum hætti. Einnig er stefnt á að hafa litla miðlun og draga fram mikilvægi hennar í jöfnun raforkuframleiðslunnar. Þetta lón mætti jafnvel nýta sem vaðlaug á sumrin.
laekur
 4.  Vindorka
Vindar blása á Sólheimum eins og annars staðar á Íslandi og því var tilvalið að setja upp vindmyllu sem einn kostinn enn í Orkugarðinum. Sett hefur verið upp 600W vindmylla sem meðal annars býður upp á fjölbreytta möguleika til að fylgjast með veðri og vindum á staðnum sem hægt er að miðla á netinu og nýta í fræðslu, auk þess sem hægt er að afla með henni mikilvægra upplýsinga til frekari uppbyggingar vindorku á Sólheimum.
 
 5.  Líforka
Líforkuhlutinn er staðsettur í Garðyrkjustöðinni Ölri nærri trjásafni Sólheima en þar er að finna jarðgerðarvél sem forvinnur lífrænar leifar til áburðar.
jardgerdur
 

FACEBOOK

PÓSTLISTI

VEÐUR

 
 
Sólheimar sjálfbært samfélag | 801 selfoss | Iceland | Sími: 422 6000 | solheimar@solheimar.is